Translate to

Fréttir

Verk-Vest fær góða gjöf

Karitas, Haukur, Hafsteinn og Pétur með málverkið. Karitas, Haukur, Hafsteinn og Pétur með málverkið.
Fleiri myndir þurfti að skoða; Hafsteinn, Pétur og Haukur. Fleiri myndir þurfti að skoða; Hafsteinn, Pétur og Haukur.
Svona sá Jón Hróbjartsson Dynjanda í Jökulfjörðum 1929. Svona sá Jón Hróbjartsson Dynjanda í Jökulfjörðum 1929.
 

Haukur Helgason fyrrverandi skólastjóri í Hafnarfirði hefur fært Verkalýðsfélagi Vestfirðinga að gjöf málverk í minningu föður síns, Helga Hannessonar formanns Verkalýðsfélagsins Baldurs á Ísafirði á árunum 1939-1949. Málverkið er af fæðingarstað Helga Hannessonar, Dynjanda í Jökulfjörðum, þar sem foreldrar hans Hannes Helgason og Jakobína Guðmundsdóttir bjuggu. Myndin er máluð af Jóni Hróbjartssyni árið 1929 og sýnir bæjarhúsin á Dynjanda og umhverfi.

 

Myndin var afhent s.l. fimmtudag, þegar Haukur Helgason var hér á ferð ásamt fjölskyldu sinni. Karítas Pálsdóttir gjaldkeri Verk-Vest og Pétur Sigurðsson fyrrum formaður Baldurs og Verk-Vest tóku við gjöfinni fyrir hönd félagsins. Viðstaddur var einnig Hafsteinn Sigurðsson, sonur Sigurðar Hannessonar bifreiðastjóra sem var bróðir Helga.

 

Helgi Hannesson fæddist á Dynjanda í Jökulfjörðum 18. apríl 1907. Fjölskyldan flutti nokkru síðar í Hnífsdal og bjó þar og á Snæfjallaströnd og Ísafirði um hríð. Hannes faðir hans stundaði sjómennsku en Jakobína vann við saltfiskverkun. Jakobína og Helgi Hannesson voru meðal stofnenda Verkalýðsfélags Hnífsdælinga árið 1924 og sátu bæði í stjórn félagsins árið 1927, þegar það háði hálfsmánaðarlangt verkfall til að verja tilvist sína og kjör verkafólks. Síðar tóku þau þátt í starfi Verkalýðsfélagins Baldurs á Ísafirði. Helgi tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands árið 1931 og starfaði við Barnaskólann á Ísafirði næstu ár. Hann var formaður Baldurs 1939-1949. Árið 1948 varð hann bæjarstjóri í Hafnarfirði og sama ár var hann kosinn forseti Alþýðusambands Íslands og gegndi þeirri stöðu í sex ár. Frá 1954 starfaði hann við Tryggingastofnun ríkisins. Helgi Hannesson gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir Góðtemplararegluna og var fyrsti formaður Samtaka sykursjúkra. Hann lést í Hafnarfirði 30. nóvember 1998.

 

Verkalýðsfélag Vestfirðinga þakkar Hauki Helgasyni og fjölskyldu hans ræktarsemi við félagið og minningu Helga Hannessonar formanns Baldurs.

Deila