Translate to

Fréttir

Verkalýðsfélagið Baldur 95 ára

Finnur Jónsson formaður Baldurs 1921-1932. Finnur Jónsson formaður Baldurs 1921-1932.
Síldarsöltun á Torfnesi rétt fyrir 1920. Síldarsöltun á Torfnesi rétt fyrir 1920.
Bæjarbryggjan stækkuð um 1923. Bæjarbryggjan stækkuð um 1923.
Verkalýðsfélagið Baldur á Ísafirði er 95 ára í dag.  Félagið var stofnað 1. apríl árið 1916 og nefndist í fyrstu Verkmannafélag Ísafjarðar. Stofnendur voru 44 verkamenn á aldrinum 18-66 ára, en í árslok voru félagsmenn 89. Í febrúar 1917 var nafni félagsins breytt í Baldur, sem það hefur borið æ síðan. Sama ár gekk Baldur til liðs við heildarsamtök verkalýðsins, Alþýðusamband Íslands. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Sigurður H. Þorsteinsson formaður, Kristján Dýrfjörð Kristjánsson varaformaður, Jón Gunnar Hallgrímsson ritari og Magnús Jónsson gjaldkeri.

 

Verkakonur á Ísafirði fengu ekki inngöngu í verkamannafélagið. Þær stofnuðu sitt eigið félag veturinn 1917, settu fram kröfur og gerðu verkfall til að fylgja þeim eftir. Atvinnurekendur á Ísafirði neituðu öllum samningum við félagið og urðu konurnar að láta undan síga. Í kjölfarið lognaðist félagið út af. Það sama gerðist árið 1906 þegar fyrsta verkalýðsfélagið á Ísafirði gerði verkfall en var kveðið niður á köldu vori. Þannig voru fyrstu spor verkalýðsbaráttunnar mörkuð erfiðleikum og mótdrægni. Árið 1924 gengu verkakonur til liðs við Baldur og upp frá því var félagið sameiginlegt öllu verkafólki á Ísafirði.

 

Karlarnir í Baldri fóru sér hægt í samskiptum við atvinnurekendur fyrstu árin. Þeir reyndu að fá vinnutímann styttan út 12 stundum í 10 stundir á dag, en þegar atvinnurekendur hótuðu hörðu, gáfu þeir eftir. Í staðinn leituðust Baldursfélagar við að efla félagsskapinn með sameiginlegum innkaupum á kolum og öðrum nauðsynjum, mótekju og garðrækt. Kjarabaráttan var látin bíða, enda tíðin erfið á árum fyrri heimsstyrjaldar og frostavetrarins 1918.


„Það er ofurmagn þrælsóttans fyrir auðvaldinu, sem vinnur á móti og niðurdrepur alt sjálfstæði yðar," sagði Ólafur Ólafsson verkamaður, stundum kallaður "ræðumaður". Hann var ódrepandi málsvari félagsskapar verkafólks og ritaði stundum greinar í blöð á Ísafirði. Hann var síðar gerður heiðursfélagi í Baldri. En þrælsóttinn átti eftir að hverfa því Verkalýðsfélagið Baldur varð öflugasta verkalýðsfélag á Vestfjörðum og forystufélag í verkalýðshreyfingunni. Það var fyrst eftir að Finnur Jónsson, síðar alþingismaður Alþýðuflokksins, varð formaður í félaginu 1921, sem látið var reyna á samtakamáttinn. Eftir glímutök í nokkur misseri náði félagið viðurkenningu á samningsrétti félagsmanna með verkfalli árið 1926. Eftir það var ekki efast um rödd Baldurs.

 

Finnur Jónsson var formaður Baldurs til 1932 þegar Hannibal Valdimarsson tók við formennskunni til 1939. Þeir Finnur voru jafnframt í forystusveit jafnaðarmanna á Ísafirði sem fóru með völd í Ísafjarðarkaupstað á þessum árum. Á kreppuárunum réðust Verkalýðsfélagið Baldur og Sjómannafélag Ísfirðinga í það stórvirki að reisa samkomuhús í hjarta bæjarins. Alþýðuhúsið reis á árunum 1934-1935 og unnu margir verkamenn og sjómenn í sjálfboðavinnu við að grafa grunn hússins. Forystu fyrir byggingunni hafði Hannibal Valdimarsson.
 
Forystumenn Baldurs aðstoðuðu við stofnun nýrra verkalýðsfélaga bæði í Hnífsdal, Súðavík og Bolungarvík. Þeir stóðu líka að stofnun Verklýðssambands Vesturlands árið 1927, sem síðar varð Alþýðusamband Vestfjarða. Á vegum Alþýðusambandsins voru kjör verkafólks og sjómanna á Vestfjörðum samræmd í krinum 1950, en áður höfðu laun verkafólks oft verið lægri á hinum smærri stöðum. Samstaða Baldursfélaga réði miklu um að félögin á Vestfjörðum náðu þeim áfanga.

Á síðari árum hafa margir áfangar náðst í réttinda- og kjarabaráttu verkafólks. Má þar nefna orlof, jöfn laun karla og kvenna, veikindaréttur, lífeyrissjóðir og starfsmenntunarsjóðir. Allir þessir áfangar hafa náðst í gegnum kjarasamninga verkafólks. Verkalýðsfélagið Baldur á Ísafirði hefur í samstarfi við önnur félög í Alþýðusambandi Vestfjarða, Verkamannasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands verið öflugur þátttakandi í kjarabaráttu verkafólks alla síðustu öld. Verkfall Baldursfélaga og fleiri verkalýðsfélaga á Vestfjörðum árið 1997 vakti athygli um allt land og sýndi að verkafólk getur látið til sín taka með samstöðu og áræði.

 

Verkalýðsfélagið Baldur var eitt af sex félögum sem sameinuðust í Verkalýðsfélagi Vestfirðinga árið 2002. Baldur starfar áfram sem deild innan Verk Vest og heldur enn sem fyrr dyggan vörð um áunnin réttindi og kjör verkafólks. Þó að félagið sé orðið aldið að árum er það síungt í baráttu fyrir mannsæmandi kjörum verkafólks.

Nánar um sögu Verkalýðsfélagsins Baldurs á heimasíðu Verk Vest undir flipanum Saga félagsins.

 Formenn Verkalýðsfélagsins Baldurs hafa verið:

Sigurður H. Þorsteinsson   1916-1920
Stefán J. Björnsson  1920-1921
Finnur Jónsson  1921-1932
Hannibal Valdimarsson   1932-1939
Helgi Hannesson  1939-1949
Guðmundur G. Kristjánsson  1949-1954
Björgvin Sighvatsson  1954-1957
Sverrir Guðmundsson  1957-1968
Pétur Pétursson  1968-1974
Pétur Sigurðsson  1974-2002
 

Formenn Baldurs, deildar innan Verkalýðsfélags Vestfirðinga:    

Róbert B. Jóhannesson  2003-2004
Ólafur Baldursson

2004-


Tenglar í mynbönd frá 80 ára afmæli Baldurs 1996:
hér og hér.

Deila