Translate to

Fréttir

Verkalýðsfélagið Baldur á Ísafirði 100 ára

Merki Baldurs Merki Baldurs
Síldarsöltun á Ísafirði Síldarsöltun á Ísafirði
Pétur Sigurðsson, Helgi Ólafsson og Guðjón Kr. Harðarson á þingi ASÍ Pétur Sigurðsson, Helgi Ólafsson og Guðjón Kr. Harðarson á þingi ASÍ

Það var 1. apríl 1916 sem 44 verkamenn á aldrinum 18-66 ára stofnuðu Verkmannafjelag Ísafjarðar einsog það hét í fyrstu. Í ársbyrjun 1917 var nafni félagsins breytt og hét eftir það Baldur. Stjórn félagsins skipuðu Sigurður H. Þorsteinsson formaður, Kristján Dýrfjörð Kristjánsson varaformaður, Jón Gunnar Hallgrímsson ritari og Magnús Jónsson gjaldkeri. Félagið náði fljótt útbreiðslu meðal verkakarla í kaupstaðnum og í árslok voru félagsmenn orðnir 89.

Baldursfélagar stóðu jafnframt að stofnun Verklýðssambands Vesturlands árið 1927, sem síðar varð Alþýðusamband Vestfjarða. Á vegum Alþýðusambandsins voru kjör verkafólks og sjómanna á Vestfjörðum samræmd í krinum 1950, en áður höfðu laun verkafólks oft verið lægri á hinum smærri stöðum. Samstaða Baldursfélaga réði miklu um að félögin á Vestfjörðum náðu þeim áfanga.

Verkalýðsfélagið Baldur var eitt af níu félögum sem sameinuðust í Verkalýðsfélagi Vestfirðinga árið 2002. Næstu ár gengu fleiri félög til liðs við Verk Vest og gerðust deildir í félaginu, þar á meðal var Sjómannafélag Ísfirðinga. Verkalýðsfélag Vestfirðinga sameinar verkafólk, sjómenn, verslunarmenn og iðnaðarmenn frá nær öllum Vestfjörðum, frá Hólmavík til Reykhóla í eitt öflugt stéttarfélag.

Verkalýðsfélagið Baldur var stofnað fyrir 100 árum til að vinna að auknum réttindum og bættum kjörum verkafólks undir áhrifum frá hugsjónum um jöfnuð og réttlæti. Þær hugsjónir eru enn í fullu gildi. Merkið sem verkamenn og sjómenn reistu veturinn og vorið 1916, er nú haldið á lofti af af félögum Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Í tilefni þess að Baldur og Sjómannafélag Ísfirðinga eiga 100 ára starfsafmæli á þessu ári verður opnuð sýning í Gamla sjúkarhúsinu, safnahúsi Ísfirðinga, 16. apríl.

Ítarlegri samantekt má nálgast hér.

Formenn Verkalýðsfélagsins Baldurs:

Sigurður H. Þorsteinsson  1916-1920
Stefán J. Björnsson         1920-1921
Finnur Jónsson               1921-1932
Hannibal Valdimarsson  1932-1939
Helgi Hannesson             1939-1949
Guðmundur G. Kristjánsson  1949-1954
Björgvin Sighvatsson      1954-1957
Sverrir Guðmundsson     1957-1968
Pétur Pétursson               1968-1974
Pétur Sigurðsson             1974-2002

Formenn Baldurs, deildar innan Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Róbert B. Jóhannesson  2003-2005

Ólafur Baldursson       2005-2016

Deila