Verkföllum ekki frestað hjá SGS félögum
Af gefnu tilefni skal það tekið fram að Starfsgreinasamband Íslands hefur ekki átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins síðustu daga og er ekki hluti af því ferli sem verður til þess að Flóabandalagið, VR, LÍF og StéttVest ákveða að fresta verkfalli. Starfsgreinasambandið hefur því ekki tekið neina ákvörðun um að fresta verkfalli sem fyrirhugað er 28. og 29. maí né ótímabundnu verkfalli þann 6. júní. Viðræður eru alltaf tvíhliða og á meðan við höfum ekki átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins þá er staðan óbreytt hvað varðar þau 15 aðildarfélög sem Starfsgreinasambandið fer með umboð fyrir. Ekki hefur verið kallað til fundar við Samtök atvinnulífsins en það má búast við því að samningafundur verði í vikunni. Upplýsingar um framvindu mála má nálgast hér á heimasíðunni og á facebook-síðunni „Vinnan mín“ eða á facebooksíðu Verk Vest
Uppfært: Boðað hefur verið til samningafundar með Samtökum atvinnulífsins á morgun, miðvikudag, í húsakynnum ríkissáttasemjara.