Translate to

Fréttir

Við sköpum verðmætin á kvennaárinu 2025

Yfirskrift 1. maí 2025 „Við sköpum verðmætin“ á mjög vel við sem svar verkalýðshreyfingarinnar við yfirgengilegri áróðursmaskínu stórútgerðarinnar á Íslandi varðandi það hve miklum verðmætum útgerðin skilar til samfélagsins. En hverjir skapa þessi raunverulegu verðmæti? Ekki verða þau til af sjálfu sér? Fiskurinn í sjónum kringum Ísland og aðrar sjávarafurðir eru auðlind okkar allra. Það er ekki síst fyrir störf kvenna sem hafa verið uppistaðan í störfum í frystihúsum, saltfiskverkunum, rækjuverksmiðjum og nú einnig laxasláturhúsum landsins sem úr þessum afurðum eru sköpuð hin gríðarlegu verðmæti sem útgerðin hreykir sér af að skila til samfélagsins. Já það er ekki síst fyrir störf hörkuduglegra kvenna sem hin raunverulega verðmætasköpun stórútgerða verður til og það á lágmarkstöxtum verkafólks. Áróðurmaskínan gengur svo langt að hóta því að flytja þessi mikilvægu og verðmætaskapandi störf úr landi verði þeim gert að skila hærri gjöldum fyrir afnot af auðlindinni! Slíkum hótunum verða stjórnvöld að mæta af fullri hörku til að verja störf sem að langstærstu leiti eru kvennastörf á landsbyggðinni. En nóg um áróður stórútgerðarinnar gagnvart störfum kvenna á landsbyggðinni.

Í dag á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks 1. maí er sérstök áhersla lögð á stöðu kvenna á íslenskum vinnumarkaði. Í því samhengi er rétt að rifja upp að þann 24. október næstkomandi verða 50 ár frá því konur sameinuðust í baráttu fyrir því að framlag þeirra til samfélagsins yrði virt að verðleikum, þá bæði á vinnumarkaði og á öðrum vettvangi. Konur stóðu upp frá störfum þennan dag til að undirstrika þann gífurlega launamun milli karla og kvenna í sömu störfum og lögðu með því áherslu á mikilvægi sitt á vinnumarkaði.

Á þessari hálfu öld sem er liðin frá fyrsta kvennafríinu mætti ætla að baráttan fyrir jöfnun launa milli karla og kvenna hefði skilað meiri árangri en raun ber vitni. Svo er alls ekki! Talsverður árangur hefur náðst en við eigum ennþá alltof langt í land.  Síðan 1975 hefur krafa um jafnrétti orðið betur skilgreind, en nú er barist fyrir jafnrétti kynjanna (kvenna og kvára) á öllum vígstöðvum, sama hvort horft er á jöfn laun, álag vegna heimilis (þriðja vaktin), þátttöku í valdastöðum, já og baráttu gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Er það svo að okkur sem samfélagi finnist í lagi að á grundvelli kyns sé í lagi að beita ofbeldi, hvort sem það er af kynferðislegum, andlegum, líkamlegum eða fjárhagslegum toga?

Jafn réttur og jöfn tækifæri kvenna og karla til launa og starfa eru grundvallarmannréttindi. Til að bæta stöðu kvenna í samfélaginu og á vinnumarkaði er mikilvægt að konur hasli sér völl og séu gefin jöfn tækifæri á sem flestum sviðum. Jafnframt er mikilvægt að afhjúpa og uppræta kynbundinn launamun á íslenskum vinnumarkaði. Þrátt fyrir harða baráttu hefur launamunur kynjanna lítið breyst undanfarin ár og þarf að fara mörg ár aftur í tímann til að sjá marktækan mun. Síðan 2009 hefur kynbundinn launamunur verið í kringum 10% og er ekki að sjá nein merki þess að jöfnun launa á vinnumarkaði hafi skilað tilætluðum árangri.

En hver er staða kvenna út í hinum stóra heimi?

Tugir milljóna karla og kvenna eru föst í nútíma þrælahaldi og enn fleiri mynda falið vinnuafl í aðfangakeðjum framleiðenda sem spanna heiminn allan. Þeim er neitað um réttinn til að stofna stéttarfélög, fá greitt lágmarkskaup sem dugar fyrir framfærslu og eru iðulega föst í hættulegri og niðurlægjandi vinnu. Launafólk um víða veröld er að berjast fyrir rétti sínum, skipuleggja stéttarfélög frammi fyrir ofbeldisfullri kúgun, berjast fyrir mannsæmandi vinnu og fara í verkföll þar sem enginn réttur er til slíks. Það er reynsla okkar hér á Íslandi að konur verða frekar fyrir vinnumansali en karlar.

Þrátt fyrir fjölda rannsókna sem sýna að ofbeldi fer vaxandi á vinnumarkaði víða um heim þráast bæðir ríkisstjórnir og atvinnurekendur við að koma að gerð alþjóðlegs sáttmála sem vinnur gegn kynbundnu ofbeldi og verkalýðshreyfingin hefur hvatt til að verði samþykktur. Það væri strax áfangasigur í baráttunni gegn ofbeldi gagnvart konum.

Verkalýðsfélög og atvinnurekendur leika lykilhlutverk í því að gera vinnustaði örugga fyrir konur, að útrýma bæði áreitni og ofbeldi gagnvart konum úr vinnuumhverfi þeirra. Almennir kjarasamningar eru t.d. gott verkfæri í þeirri baráttu.

Konur segja „þið skuluð reikna með okkur“ þegar kemur að jafnrétti á vinnustöðum, fjárfestingu í samfélagsverkefnum, endalokum launamuns kynjanna og réttmætri þátttöku kvenna í framvarðasveit stéttarfélaga. 

Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins 1. maí er okkar dagur til að sýna styrk og staðfestu vinnandi stétta, í baráttu þeirra gegn kúgun, til að sýna samstöðu heima og milli landa og vinna áfram að því verkefni að búa til betri heim þar sem ofbeldi á vinnustöðum líðst ekki, þar sem jafnrétti á vinnumarkaði er í fyrirrúmi og þar sem kvennastörf eru metin að verðleikum. Jafnframt er brýnt að muna að réttindi launafólks duttu ekki af himnum ofan og að brýnt er að standa vörð um það sem þegar hefur áunnist hérlendis.

Sýnum samstöðu og mætum öll í kröfugöngur dagsins. Gleðilegan baráttudag verkafólks!

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Deila