Translate to

Fréttir

Við viljum vinna - mótuð verði djörf aðgerðaáætlun

Kröfugangan á Ísafirði.
Mynd. BB.IS Kröfugangan á Ísafirði. Mynd. BB.IS
Að vanda var góð þátttaka í kröfugöngu og hátíðarhöldum á 1.maí víða á Vestfjörðum. Á Ísafirði kom fólk saman við skrifstofu verkalýðsfélaganna þaðan sem gengið var fylktu liði niður í Edinborgarhúsið með lúðrasveitina í broddi fylkingar. Í Edinborgarhúsinu var að vanda boðið upp á hefðbundna hátíðardagskrá, en aðalræðumaður dagsins var Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ. En í ræðu sinni kom Gylfi inn á það dugleysi og skammsýni sem einkennt hafði alla hugsun alþingismanna við endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs.

..."Íslensk þjóð stendur nú á tímamótum sem krefjast þess að við tökum einarða afstöðu. Við eigum að taka afstöðu með samfélagslegum gildum, samábyrgð, samráði og velferð fyrir alla og afstöðu gegn þeirri einstaklings- og einkamarkaðshyggju sem sigldi efnahagslífi okkar og um leið velferð launafólks og fjölskyldna upp á sker.

Mikilvægasta verkefni okkar nú og á næstu misserum er baráttan gegn atvinnuleysinu. Krafa okkar er sú, að allir leggist á eitt um að koma hjólum atvinnulífsins af stað og krafa okkar á 1. maí er „Við viljum vinna". Við viljum að mótuð verði djörf aðgerðaáætlun á næstu vikum sem hefur það að markmiði að ráðast gegn atvinnu- og tekjumissi fólks með því að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang. Sinnuleysi og ákvarðanatökufælni stjórnvalda er farið að valda gríðarlegum vanda sem engan enda ætlar að ná..." Ræðu Gylfa má lesa hér í heild sinni.

Þá flutti Ólöf Hildur Gísladóttir framkvæmdastjóri Fos Vest pistil dagsins, þá voru einnig flutt ýmiskonar tónlistaratriði. Að vanda var boðið upp á atvinnuvegaljósmyndasýningu á gangi Edinborgarhússins sem mun standa til 10.maí nk. Að loknum hefðbundnum hátíðarhöldum var boðið upp á kökuhlaðborð í Guðmundarbúð.

Þess ber að geta að formaður Verk Vest var fjarri góðu gamni á Ísafirði, en hann var aðalræðumaður dagsins á hátíðarsamkomu stéttarfélaganna í Skagafirði á 1.maí. Er hægt að lesa ræðu Finnboga hér. En Finnbogi var ómyrkur í máli gagnvart stjórnvöldum sem hann segir hafa svikið launþega og hiki ekki við að beyta lagasetningum á verkföll sé því að skipta.
Deila