Viðræðum við SA slitið - aðgerðarhópur SGS kemur saman
Það að eitt aðildarfélag SA skuli geta tekið kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í gíslingu eru hrein og klár hriðjuverk gagnvart almenningi í landinu. Það að útgerðaraðallinn skuli ætla beita almennu verkafólki fyrir sig til að ná fram það sem þeim finnst þóknanleg niðurstaða getur og á verkafólk ekki að sætta sig við. Það er með hreinum ólíkindum hve langt þessi sérhagsmunahópur hefur komist og nú er kominn tími til að stoppa þá af með öllum tiltækum ráðum. Ákalli þeirra til ríkisstjórnarinnar um að höggva á hnútinn ber ekki að svara. Ríkisstjórnin á að sýna þeim að hún láti ekki undan slíkum þvingunum.
Á fundi samninganefndar SGS var ákveðið að boða til fundar hjá aðgerðarhópi SGS sem mun koma saman til fundar í húsakynnum sáttasemjara á tíunda tímanum í dag. Á þeim fundi verður farið yfir þá stöðu sem komin er upp í kjaraviðræðum og mögulegar aðgerðir, ein af þeim aðgerðum er að boða til verkfalla.