Vinnslustöðvun hjá Vísi hf. á Þingeyri
Frá með morgundeginum 9.júli hefur verið boðuð vinnslustöðvun hjá fiskvinnslu Vísis á Þingeyri. Viðar Friðgeirsson rekstrarstjóri Vísis á Þingeyri gerir ráð fyrir að störf hefjist aftur fyrstu vikuna í september, en inn í þeirri lokun sem nú er að hefjast er kjarasamningsbundið sumarleyfi starfsfólks.
Þrátt fyrir að áður boðuð lokun sem átti að hefjast 1.maí sl. hafi verið stytt úr tæpum 4 mánuðum í rúmar 3 vikur sér fyrirtækið sér ekki hag í því að halda starfsfólkinu á kauptryggingu eftir að sumarleyfi lýkur og tryggja sér þannig áframhaldandi ráðningarsamband. Á starfsmanna fundi fyrr í dag var farið yfir þessi mál og hvatti deildarformaður Verk Vest á Þingeyri starfsfólk til að skrá sig atvinnulaust þegar launagreiðslum frá Vísi hf. lýkur.
Verið er að vinna að því að fulltrúi frá vinnumálastofnun verði til taks á Þingeyri næstu daga til að taka á móti skráningum,
en til að hnykkja á upplýsingum varðandi atvinnuleysisbætur eins og þær eru í dag er vert að hafa eftirfandi í huga:
Upphæðir atvinnuleysisbóta
Tekjutengdar atvinnuleysisbætur miðað við 100% bótarétt eru að hámarki 220.729 kr. á mánuði eða 10.186 kr. á dag.
Grunnatvinnuleysisbætur miðað við 100% bótarétt eru 136.023 kr. á mánuði eða 6.277 kr. á dag.
Greiðsla með hverju barni yngra en 18 ára er 251 kr. á dag.
Grunnatvinnuleysisbætur eru greiddar fyrstu 10 virku daganna. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur taka þá við í allt að þrjá mánuði en eftir það eru grunnatvinnuleysisbætur greiddar á ný.
Ofangreindar upphæðir miðast við 1. febrúar 2008.
Bótaréttur umsækjanda
Bótaréttur umsækjanda miðast við starfstíma og starfshlutfall hans á síðustu tólf mánuðum. Fullt starf í 12 mánuði skapar umsækjanda 100% bótarétt en ella er rétturinn hlutfallslegur minnst 25%.
Upphæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta miðast við 70 % af meðallaunum á 6 mánaða tímabili tveimur mánuðum áður en sótt er um atvinnuleysisbætur. Ýmsar sérreglur gilda um hlutabætur, geymslu áunnins bótaréttar o.s.frv. Stéttarfélagið veitir nánari upplýsingar um öll þessi atriði.
Umsókn um atvinnuleysisbætur
Sótt er um atvinnuleysisbætur hjá Þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar í því umdæmi þar sem umsækjandi er búsettur. Helstu fylgigögn með umsókn:
- Vottorð vinnuveitanda. Vottorðið geymir upplýsingar um starfstíma, starfshlutfall og ástæðu starfsloka.
- Skattkort.
- Önnur gögn ef við á s.s. vegna skertrar vinnufærni, náms, tekna, fjármagnstekna ofl.
Greiðslur atvinnuleysisbóta
Atvinnuleysisbætur eru greiddar fyrsta virka dag hvers mánaðar. Tímabilið sem greitt er fyrir er frá 20. - 19. hvers mánaðar. Dæmi: Við útborgun 1. ágúst 2008 er verið að greiða fyrir tímabilið 19. júní - 20. júlí.
Greiðslustofa Vinnumálastofnunar
Greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir landið allt fara fram hjá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar. Til að fá upplýsingar um stöðu umsóknar eða greiðslur er hægt að hringja í 582 4900 eða senda fyrirspurn með tölvupósti: greidslustofa@vmst.is