Yfirlýsing frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga vegna Covid hópsmits um borð í Júlíusi Geirmundssyni
Verkalýðsfélag Vestfirðinga fordæmir það fullkomna virðingarleysi sem útgerð frystitogarans Júlíusar Geirmundssonar ÍS 270 sýndi skipverjum með því að halda skipi til veiða þrátt fyrir ítrekuð tilmæli umdæmislæknis sóttvarna á Vestfjörðum, að koma skipverjum strax til sýnatöku vegna gruns um Covid 19 smit hjá áhafnarmeðlimum. Útgerðin hunsaði með því einnig viðbragðsáætlun Sjómannasambands Íslands um smitgát og viðbrögð sem og leiðbeiningar embættis landslæknis fyrir skip og hafnir.
Sjómennska er hættuleg jafnvel þegar hún er stunduð með fullmannaðri og frískri áhöfn. Sú ákvörðun útgerðarinnar að halda til veiða í trássi við tilmæli er ekki aðeins til þess fallin að stofna heilsu og velferð einstakra skipverja í voða heldur beinlínis til þess fallin að stefna öryggi skipsins í verulega hættu. Það er algerlega á skjön við þá skýru skyldu útgerðarinnar halda skipi ekki til veiða nema það sé þannig mannað og útbúið að hægt sé að takst á við aðstæður á sjó með öryggi í fyrirrúmi.
Nú sjá skipverjar fram á stórfellt tekjutap vegna þeirrar afstöðu útgerðar að fylgja ekki tilmælum um sóttvarnir. Þá er ótalið heilsutjón sem skipverjar kunnu að verða fyrir af sömu ástæðu. Með háttsemi sinni stefndi útgerðin áhöfn og öryggi skipsins í hættu og fór þannig á svig við meginreglur siglingalaga sem ætlað er að tryggja öryggi áhafnar og skips. Hlýtur slíkt að koma til skoðunar hjá eftirlitsaðilum eða lögreglu.
Þjóðin öll er á sama báti þegar kemur að smitvörnum og er það skylda okkar allra að sýna þá samfélagslegu ábyrgð að fara að tilmælum um smitvarnir. Sú samfélagslega ábyrgð og skylda var ekki til staðar hjá útgerð skipsins þegar ákvörðun var tekin um að hunsa tilmæli umdæmislæknis sóttvarna á Vestfjörðum og halda skipinu til veiða.
Hlutverk Verk Vest er að gæta hagsmuna félagsmanna í þessu máli sem öðrum og mun félagið kappkosta við að fylgja hagsmunamálum félagsmanna sinna fast eftir, nú sem endranær.