Translate to

Fréttir

Yfirlýsing vegna afturköllunar starfs- og rekstraleyfa fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum

Eldisstöðvar í Norðurbotni Tálknafirði Eldisstöðvar í Norðurbotni Tálknafirði

Fiskeldi á Vestfjörðum er að verða burðarás atvinnulífs á Vestfjörðum. Vanhugsaðar stjórnvaldsaðgerðir með afturköllun starfs- og rekstrarleyfa fiskeldisfyrirtækja hafa valdið ótta, óöryggi og reiði íbúa á Vestfjörðum. Sú atburðarás, ef ekkert verður að gert, mun hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir Vestfirði og samfélagið þar til frambúðar.

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga fordæmir slíkar aðgerðir og mun ekki sætta sig við slík hryðjuverk og kallar eftir samfélagsábyrgð þeirra sem standa að slíkum ákvörðunum.

Með ógildingu starfs- og rekstrarleyfa eru allar líkur á að rekstargrundvöllur fiskeldis á Vestfjörðum sé brostinn að auki eru önnur framtíðaráform í uppbyggingu á laxeldi á Íslandi í algjöru uppnámi.

Að svifta fyrirtækin starfs- og rekstrarleyfi setur störf um 300 einstaklinga í bráða hættu með tilheyrandi skaða fyrir byggð á Vestfjörðum. Ef umrædd rekstrar- og starfsleyfi eru ekki fyrir hendi er rekstargrundvöllur fyrirtækjanna brostinn og líklegt að öllum starfsmönnum verði sagt upp.

Það er áfall fyrir íbúa og atvinnulíf á Vestfjörðum að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi hafnað beiðni fiskeldisfyrirtækja á sunnanverðum Vestfjörðum um frestun réttaráhrifa og fellt úr gildi starfs- og rekstrarleyfi fyrirtækja sem eru lífæðar atvinnu á sunnanverðum Vestfjörðum

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga krefst þess að Alþingi og ríkisstjórn grípi inn í og tryggi að illa ígrundaðar stjónvaldsaðgerðir kippi ekki stoðunum undan rekstri fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum.

Deila