Translate to

Pistlar

1. maí ræða Lilju Rafneyjar á Suðureyri

Kröfugangan á Suðureyri Kröfugangan á Suðureyri

Góðir félagar til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkafólks.

Sjaldan eða aldrei í sögu íslenskrar þjóðar hefur efnahagur landsins verið jafn góður og nú um stundir,okkur hefur tekist með sameiginlegu átaki þjóðarinnar og hagstæðum ytri skilyrðum m.a. með fjölgun ferðamanna,öflugum sjávarútvegi,makrílveiðum og annara hagstæðra ytri skilyrða tekist að vinna okkur hratt út úr Hruninu.

Það mætti því ætla að smjör drypi af hverju strái og hagur almennings og landsins alls væri traustur og hægt væri að bæta kjör þeirra sem höllum fæti standa og efla t.d. innviði á landsbyggðinni.

En það er ekki sá veruleiki sem alltof stór hluti þjóðarinnar býr við því miður. Ég vil nefna hér tvennt sem endurspeglar ójöfnuð sem viðgengst í okkar ríka samfélagi.

Fátækt er veruleiki alltof margra og lýsir sér með margvíslegum hætti . Helstu áhættuhópar eru tekjulágt fólk ,einstæðir foreldrar með börn og aldraðir og öryrkjar.

Fátæk börn eru smánarblettur á þjóðfélagi sem tilheyrir ríkustu þjóðum heims og í dag líða um 10% barna skort á Íslandi.

Það er eitthvað mikið að hjá þjóð sem telur sig búa í velferðarþjóðfélagi en lætur slíkt samt viðgangast.

Því börn eru sá hópur sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og verða að sætta sig við þær aðstæður sem þeim eru skapaðar hverju sinni. Þau líða fyrir fátækt á heimili sínu hverjar svo sem orsakir fátæktarinnar eru. Sum börn bíða þess aldrei bætur og félagslega geta þau orðið utan garðs og ekki þátttakendur í því samfélagi sem þorri bara á Íslandi hefur aðgang að.

Það er dapurlegt að vita til þess að fjöldi barna fer á mis við ótal hluti sem teljast sjálfsagðir í nútímasamfélagi. Þar má nefna íþróttir,listnám og annað uppbyggilegt frístundastarf sem öll börn óháð efnahag foreldra ættu að hafa aðgang að.

Mikil hætta er á að í neysluþjóðfélagi okkar beri fátæk börn það með sér með einhverjum hætti t.d. í klæðaburði og öðru hvernig ástatt er og að þau verði fyrir aðkasti og einelti skólafélaga sinna og eru þar með komin í félagslegan áhættuhóp. Allt þetta dregur úr möguleikum þeirra í framtíðinni til sömu lífsgæða og tækifæra sem önnur betur sett börn hafa.

Oftar en ekki lenda foreldrar fátækra barna í tímabundnum áföllum sem þarf að vera hægt að bregðast við strax svo þeir geti náð sér aftur á strik sem fyrst og lendi ekki í vítahring fjárhagserfiðleika sem ekki er hægt að komast út úr.

Stór hluti vandans eru lág laun umönnunarstétt og verkafólks. Laun hefðbundinna kvennastétta í kennslu og heilbrigðisstéttum eru ekki metin að verðleikum til jafns við ábyrgðarstörf sem felast í að höndla með fjármuni. Það er ólíðandi að laun fyrir 100 % starf standi ekki undir lágmarksframfærslu.

Skattgreiðslur láglaunahópa hafa aukist á síðustu árum þar sem skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun í landinu og verið er að eyðileggja þrepaskipt skattkerfi. Ríkisvaldið hefur tekið meira og meira af lágum tekjum fólks í skatta og ýtt undir það að fólki lendi í fátæktargildru.

Í velferðarríki gegnir ríkisvaldið mikilvægu hlutverki til að jafna afkomu fólks og möguleika. Tekjujöfnunaraðgerðir geta bætt hag fátækra barna á Íslandi nú þegar og fjárfest þar með í framtíð þeirra með því að afla tekna af hinum tekjuháu í þjóðfélaginu.

Launahækkanir undanfarinna missera hafa skilað sér misvel til almennings í landinu og fyrirtæki eru misburðug til að rísa undir þeim. Stóru sjávarútvegsfyrirtækin mala gull meðan mörg þau minni á landsbyggðinni reyna að halda sjó. Stærsta atvinnugrein þjóðarinnar í dag ferðaþjónustan er alltof oft uppvís af því að greiða lág laun undir kjarasamningum sem bitnar oftar en ekki á ungu og erlendu starfsfólki ,slíkt á ekki að líðast. Sjávarútvegsfyrirtæki hóta að fara með vinnslu úr landi ef verkafólk og sveitarfélög dansa ekki eftir þeirra höfði. Kúgunartæki eru allt of víða í gangi sem menn veifa eða beita þegar halda á fólki á mottunni og sína hver ræður. Peningar og völd eru stjórntæki sem beitt hefur verið gegn launafólki í háa herrans tíð og gert er enn í dag.

Aukin misskipting og fátækt eru afleiðing þess að fjármunum er stýrt kerfisbundið þangað sem þeir eru fyrir. Þeir ríku verða ríkari og fátækari fátækari það er gömul saga og ný.

En auðvita er þetta ekkert náttúrulögmál og verkalýðshreyfingin þarf að taka sér tak og gera betur fyrir sitt fólk einnig stjórnvöld,sveitarfélög og ýmis félagasamtök , hvert og eitt okkar getur líka haft áhrif.

Við verðum að beita öllum tiltækum úrræðum til að koma í veg fyrir félagslegan ójöfnuð og fátækt.

Það er vissulega ekkert náttúrulögmál að einhver hluti þjóðarinnar þurfi að búa við fátækt eða örbirgð heldur er það samfélagsmein sem unnt er að uppræta ef vilji er fyrir hendi.

Ég vil líka koma inná misjöfn búsetuskilyrði eftir landsvæðum það er vissulega stór hluti af lífskjörum launafólks á viðkomandi svæði.  Kostnaður vegna þátta eins og t.d. heilbrigðisþjónustu,menntunar,orkuverðs,vöruverðs,flutningskostnaðar,samgangna,nýframkvæmda og annarar þjónusta vigtar þungt hjá þeim sem búa í mikilli fjarlægð frá stórhöfuðborgarsvæðinu. Aðrir þættir vega vissulega þarna jákvætt upp á móti en við eigum að standa fast á þeirri kröfu að búsetuskilyrði séu jöfnuð.

Það er kjarabót sem skiptir máli fyrir allt launafólk sem vill búa a landsbyggðinni og gerir þá sjálfsögðu kröfu að þjónustustigið sé gott og grunnþjónustan sé tryggð. Það er því miður veruleikinn víða að þjónustustigið hefur dregist saman á mörgum stöðum ekki bara í minnstu byggðunum heldur líka á stærri stöðum. Þetta skrifast á ýmsa þætti s.s. breytt rekstrarumhverfi en einnig á opinbera og einkaaðila. Það vantar sárlega samfélagslega ábyrgð í allar ákvarðanartökur í stað þess að ákvarðanir stjórnist eingöngu af hámarks arðsemi og græðgi.

Yfirskrift dagsins er „Húsnæði-sjálfsögð mannréttindi „ við þekkjum öll umræðuna um uppsprengt húsnæðisverð og rokdýrt leiguverð á höfuðborgarsvæðinu þar þarf vissulega að taka til hendinni svo venjulegt launafólk geti átt þess kost að búa við þau mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið á sanngjörnu verði. Á landsbyggðinni er annarskonar vandi í húsnæðismálum þar hefur varnarbarátta verið háð lengi vegna neikvæðrar íbúaþróunar en lítið sem ekkert verið byggt sökum lágs markaðsverðs og hás byggingarkostnaðar. Þar er sívaxandi ásókn í sumarhús í þéttbýli og víða skortir orðið leiguhúsnæði fyrir fólk sem er að byrja að búa eða vill minnka við sig og vill búa á landsbyggðinni en hefur ekki aðgengi að fjármagni til að byggja eða kemst ekki í öruggt leiguhúsnæði. Verkalýðshreyfingin hefur farið í samstarf við sveitarfélög í stærstu sveitarfélögunum um uppbyggingu almennra íbúða en landsbyggðin má ekki gleymast þar býr launafólk sem á rétt á að búa við aðgengi að öruggu húsnæði. Launþegahreyfingin hefur skyldur gagnvart öllum launþegum og á að taka slaginn með landsbyggðinni líka í húsnæðismálum.

Verkalýðshreyfingin kom með öflugum hætti að uppbyggingu húsnæðis á landsbyggðinni á sínum tíma og væru mörg byggðarlög illa stödd ef það húsnæði væri ekki til staðar í dag.

Nú þarf Verkalýðshreyfingin ,stjórnvöld og sveitarfélög að horfa til landsbyggðarinnar í uppbyggingu á húsnæði því áframhaldandi þensla á höfuðborgarsvæðinu er engum til góðs.

  Ef framboð á húsnæði er ekki til staðar þá fáum við ekki fólk til þess að flytja til landsbyggðarinnar og unga fólkið leitar áfram annað ef húsnæði og atvinnutækifærin eru ekki til staðar.

Verkalýðshreyfingin er fjöldahreyfing sem getur látið til sín taka og haft áhrif ,hún er ekki bara forystan hverju sinni heldur fólkið sjálft sem skipar hreyfinguna . Það fólk þarf að fylgja fast eftir baráttunni fyrir bættum kjörum-baráttunni gegn fátækt og ójöfnuði og fylgja eftir þeirri kröfu að búsetuskilyrði landsmanna séu jöfnuð.

Góðir félagar við erum ein þjóð með fjölbreytta flóru  íbúa og eigum auðlindir landsins saman og kjör almennings eiga að endurspeglast í þeirri staðreynd. Það eiga allir að njóta góðs af batnandi hag þjóðarinnar og fá sömu tækifæri í lífinu óháð búsetu og efnahag.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.

Deila