Atvinnu- og tekjumöguleikar sjómanna gleymdust í svokölluðum mótvægisaðgerðum
Formannafundur Sjómannasambands Íslands á Akureyri var haldinn dagana 26 - 27. október 2007. Fulltrúi Verkalýðsfélags Vestfirðinga á fundinum var Sævar Gestsson formaður sjómannadeildar Verk Vest. Kjara og skipulagsmál voru fyrirferðamikil á fundinum og sendi fundurinn frá sér eftirfarandi ályktun vegna mótvægisaðgerða vegna niðurskurðar á þorskveiðiheimildum sem hefur einna mest áhrif á atvinnu og tekjumöguleika sjómanna.
„Fundur formanna aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands, haldinn á Akureyri 26. og 27. október 2007, átelur ríkisstjórn Íslands harðlega fyrir að í hinum svokölluðu mótvægisaðgerðum, vegna skerðingar þorskveiðiheimilda á nýhöfnu fiskveiðiári, skuli ekki hafa verið gerð minnsta tilraun til að hafa samráð við samtök sjómanna um aðgerðir til að mæta þeirri skerðingu sem sjómenn verða fyrir vegna þessa.
Ekki getur farið milli mála að skerðing veiðiheimilda í þorski um rúm 60 þús. tonn hefur veruleg áhrif á atvinnu- og tekjumöguleika sjómanna. Áhrif skerðingarinnar á sjómenn eru meiri en á flestar aðrar stéttir í landinu.
Í hinum sértæku aðgerðum innan mótvægisaðgerðanna er komið til móts við útgerðina með niðurfellingu veiðigjalds og fiskvinnslan fær auknar niðurgreiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði til að hún geti mætt niðurskurðinum án þess að taka fólk af launaskrá. Sérstaklega eru einnig gerðar ráðstafanir til að mæta tekjusamdrætti sveitarfélaga og hafna landsins og þannig mætti lengi telja. Hvergi er hins vegar minnst á aðgerðir til að létta undir með sjómönnum sem kunna að lenda í erfiðleikum vegna atvinnu- og tekjumissi í kjölfar samdráttarins. Stjórnvöld hafa því gleymt sjómönnum við undirbúning aðgerðanna. Sjómenn eru sárreiðir stjórnvöldum fyrir að sýna stéttinni ekki meiri sóma en raun ber vitni þegar erfiðleikar steðja að,"
Formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga minnti á þessa mismunun í svæðisútvarpi vestfjarða 28. september sl. en þar áréttaði formaðurinn þá skoðun sína að sjómenn hefðu alveg gleymst í margumtöluðum mótvægisaðgerðum.
"Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða, segir sjómennina hafa gleymst í mótvægisaðgerðum Ríkisstjórnarinnar. Hann vill að sjómannaafsláttur verði aukinn. Þá vill hann að sjómenn njóti góðs af afnámi veiðileyfagjaldsins". (úr fréttum svæðisútvarps vestfj. 28.09.2007)
Þá var einnig ályktað um öryggismál sjómanna og vilja sjómenn fá björgunar þyrlusveit staðsetta á Akureyri. Þegar hefðbundnum fundarstöfum lauk bauð Sjómannafélag Eyjafarðar fundarmönnum ásamt mökum í óvissuferð, sem þótti mjög vel heppnuð.