Auðveldum fiskvinnslu aðgengi að gámafiski!
Þó ekki sé þörf á að minna á þann vanda sem stefnir í varðandi landvinnslu sjáfarafurða vegna niðurskurðar á þorskkvóta, þá sé ég mig samt knúinn til að minna á eitt af því sem gæti komið í veg fyrir fjölda atvinnuleysi í vinnslu og útgerð. Í umræðunni er sífellt verið að klifa á því hve mörg störf tapist ef ekki verði tekið af festu á þeim vanda sem mun skapast í fiskvinnslu og útgerð í landinu að óbreyttu.
Á ritvellinum velta sérfræðingar af ýmsu tagi upp þeirri mynd sem mun blasa við í landvinnslu og útgerð ef ekki komi til aðgerða að hálfu stjórnvalda. Sérstaklega eru Vestfirðir teknir sem dæmi þar sem hér vinna hlutfallslega flestir við landvinnslu og útgerð. Sú mynd er ekki falleg og því oftar sem hamrað er á hve slæmt ástandið muni verða þeim mun meir eykst hættan á flótta úr grunnatvinnuvegum landsbyggðarinnar.
Strax og ljóst var að boðaður niðurskurður yrði að veruleika sendi Verkalýðsfélag Vestfirðinga frá sér ályktun með greinagerð þar sem bent var á möguleika sem væri raunhæfur til að efla og styrkja landvinnsluna. Þar var skorað á ráðmenn þjóðarinnar að taka til endurskoðunar reglur um kvótaálag á útflutning á ísuðum óunnum fiski, segir orðrétt í ályktuninni ... " Ráðamönnum þjóðarinnar ber skylda til að tryggja sem öflugasta landvinnslu sjáfarafurða á Íslandi, en það verður ekki gert með því að hvetja útgerðir til að senda sjávarafla óunninn úr landi "... því miður hafa viðbrögð ráðamanna orðið lítil sem engin.
Á síðasta ári voru flutt út rúmlega 65 þúsund tonn af óunnum sjávarafurðum og sjá menn það í hendi sér, að með því að gera fiskvinnslunni mögulegt að bjóða í þennan afla þá væri komin mótvægisaðgerð sem hald væri í fyrir landvinnsluna. Því vitna ég í greinagerð sem fylgdi ályktuninni ..." Miðað við boðaðann aflasamdrátt í þorski á næsta fiskveiðiári skiptir það fiskvinnsluna mestu máli að eiga kost á að bjóða í þann fisk sem ella færi á erlenda fiskmarkaði "... leiða má að því líkum að þetta magn sjávarfurða gæti skipt sköpum fyrir landvinnsluna þegar kemur fram á næsta fiskveiðiár, sérstaklega vormánuði 2009.
Eitt helsta viðfangsefni aðalfundar Samtaka fiskvinnslu án útgerðar var einmitt að leita leiða til að fiskvinnslan gæti boðið í þann fisk sem er fluttur óunnin á erlenda markaði. Þar er einnig ítrekuð sú nauðsyn að fjárhagslegur aðskilnaður verði í rekstri útgerðar og fiskvinnslu til að jafna samkeppnisskilyrði fyrirtækja í landvinnslu. Einnig telja samtökin það réttmæta kröfu að allur óunninn afli íslenskra fiskiskipa, sem ætlaður er til sölu á erlendum fiskmörkuðum, verði boðinn til sölu á innlendum fiskmörkuðum.
Það er nokkuð ljóst að ef fara á í mótvægisaðgerðir sem hald er í og eiga að skila öruggari atvinnu til landverkafólks í fiskvinnslu, þá þarf að taka tillit þess magns sjávarfurða sem er flutt úr landi óunnið. Það má síðan leiða líkur að því að sjómenn nytu einnig góðs af þessari aðgerð þar sem lögmálið um framboð og eftirspurn gæti leitt til hærra skiptaverðs landaðs afla á markaði innanlands.
Í þessari grein hef ég lítið komið inn á þann vanda sem steðjar að sjómanna- stéttinni að óbreyttu. Ég kom inn á það á vef Bæjarins Besta www.bb.is þann 6.nóvember s.l. að ég teldi nánast ógerlegt að fylla það skarð sem 60 þúsund tonna aflaniðurskurður í þorskkvóta hefði í för með sér. Stjórnvöld verða að gera útgerðum það kleift að skapa sér sem mest verðmæti úr þeim afla sem heimilt verður að veiða. Með þeim hætti eða með auknum aflaheimildum strax á næsta fiskveiðiári væri kannski hægt að minka það tekjutap sem sjómenn og útgerð annars verða fyrir.
Finnbogi Sveinbjörnsson
formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.