Hátíðarávarp Lilju Rafneyjar á Suðureyri 1. maí 2014
Til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkafólks.
Yfirskrift dagsins í ár er „ Samfélag fyrir alla“ Það þykir mér þörf og góð áminning.
Í samfélagi þar sem jöfnuður ríkir líður fólki vel og þar vex úr grasi kynslóð sem hefur jákvæðari og uppbyggilegri samfélagssýn en þar sem ójöfnuður ríkir.
Þar sem mikil misskipting ríkir er jarðvegur fyrir reiði og tortryggni og félagsleg vandamál magnast upp og neikvætt andrúmsloft skapast.
Það eru sjálfsögð mannréttindi í dag að fólk geti lifað við sómasamleg kjör og framfleytt sér og sýnum með vinnu sinni og á það einnig við þá sem þurfa að framfleyta sér á ellilífeyri og örorkubótum.
Það er ekkert sjálfgefið í þessu lífi og enginn veit hvenær heilsan bregst eða slys ber að höndum og sá veruleiki blasir við að þurfa að lifa eingöngu á örorkubótum.
Allir vilja í orði búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld og þá þurfum við að sýna það í verki með samfélagslegri ábyrgð.
Ég hef lagt fram á Alþingi frumvarp að lögum um að lögbinda lágmarkslaun í landinu því mér finnst það vera samfélagsleg skylda okkar sem þjóðar að tryggja lágmarksframfærslu fólks.
Þrátt fyrir þann árangur sem verkalýðshreyfingin í landinu hefur náð á undanförnum áratug eða svo í að hífa upp lægstu launin þá eru þau því miður enn alltof lág og í raun ekki mannsæmandi í okkar þjóðfélagi sem telst ríkt á heimsvísu.
Tilgangur þessa frumvarps er ekki að taka fram fyrir hendurnar á stéttarfélögum í gerð kjarasamninga það verkefni mun áfram brenna á verkalýðsforustinni þó lágmarkslaun í landinu verði lögbundin.
Í lífskjararannsókn Hagstofunnar sem birt var í gær kom fram að hlutfall íslendinga sem mældust fyrir neðan lágtekjumörk árið 2013 var um 9,3 % eða um 30 þúsund manns.
Þessi staðreynd er óásættanleg og sýnir að við eigum enn langt í land með að tryggja sómasamlega kjör og að „Skapa réttlátt samfélag fyrir alla“.
Eins og fréttir undanfarið hafa borið með sér þá ríkir víða uppnám og reiði í sjávarbyggðum landsins og óöryggi um hvað framtíðin muni bera í skauti sér eftir að sjávarútvegs fyrirtækið Vísir í Grindavík ákvað að hætta starfsemi sinni á Þingeyri,Djúpavogi og á Húsavík.
Við munum vel hvað gerðist á Flateyri fyrir nokkrum árum þegar stærsti atvinnurekandinn þar fór í burtu með mest allan kvótann. Það veit enginn í raun sem býr í þessum minni sjávarbyggðum hvenær sömu hlutir gætu gerst þar miðað við núverandi kvótakerfi og það er óásættanlegt hlutskipti fyrir fólk að búa við.
Þetta kerfi sýnir enga samfélagslega ábyrgð heldur lýtur eingöngu lögmálum „markaðarins“ Þessu þarf að breyta og það þarf að tryggja sjávarbyggðunum aflaheimildir sem bundnar eru byggðarlögunum til framtíðar svo atvinnu og búsetuöryggi íbúanna sé tryggt
Það er lítilsvirðing við íbúa sjávarplássa að bjóða uppá einskonar hreppaflutninga í stóra blokk í Grindavík eins og Útgerðarfélagið Vísir í Grindavík hefur gert - það sýnir ekki samfélagslega ábyrgð heldur minnir þetta mann óþyrmilega á færanlegar vinnubúðir þar sem fólki er gert að fylgja Húsbændum sínum.
Ekkert er gert með vilja fólks hvar það vill búa og hvar það hefur byggt upp sýn heimili og fjölskyldur og á sýnar rætur, heldur er fyrirtækinu skellt í lás og lífsbjörgin tekin frá því.
Og ekki má gleyma því að þetta sama fólk hefur byggt upp viðkomandi fyrirtæki með vinnu sinni en á samt engan rétt þegar Fyrirtækið ákveður að hverfa á braut og hefur fengið mikla meðgjöf í gegnum tíðina í forma ókeypis Byggðakvóta sem leggst á háar fjárhæðir.
Misrétti og óréttlæti er ekki góður förunautur og uppspretta alls ills .
Með því að sýna samfélagslega ábyrgð og byggja upp samfélag þar sem réttlæti og jöfnuður er hafður að leiðarljósi er hægt að nálgast það markmið að „ Samfélagið sé fyrir alla en ekki bara fyrir fáa útvalda.