Hátíðarræða 1. maí 2008
Launþegar - ágætu hátíðargestir - til hamingju með daginn.
Á því ári sem nú er liðið frá því við fögnuðum alþjóðlegum baráttudegi verkafólks - hafa mikil umbrot og breytingar átt sér stað í atvinnulífi okkar Vestfirðinga.
Áþreifanlegustu umbrotin voru vegna lokana og gjaldþrota fyrirtækja tengdum fiskvinnslu og útgerð.
Þessum umbrotum fylgdu uppsagnir þeirra sem störfuðu við vinnslu og veiðar sjávarfangs. Afleiðingar hafa verið graf alvarlegar, sérstaklega þegar horft er til tapaðra starfa og fækkun íbúa á Vestfjörðum.
Ekki sér enn fyrir endann á þeim afleiðingum sem þriðjungs niðurskurður þorskveiðiheimilda hefur sömuleiðis haft fyrir byggðarlög þar sem atvinnulíf byggir hvað mest á veiðum og vinnslu. Í sumum byggðarlögum var um hreinar náttúruhamfarir að ræða. Hamfarir sem höggvið hafa stór skörð í atvinnu- og mannlíf blómlegra byggða, hamfarir sem í verstu tilfellum hafa haft varanleg áhrif með fækkun atvinnutækifæra og skertri lífsafkomu íbúa byggðarlaganna.
Ekki haf margumræddar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar skilað miklum ávinningi til þeirra sem helst þurfa á að halda. Má í því sambandi benda á serstaklega rýran hlut sjómanna, sem sjá fram á gríðarlegan tekjumissi verði ekki bætt úr strax.
Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar hefðu átt að beinast með markvissari hætti að sjómönnum og fiskverkafólki, ásamt því að stuðla að fjölbreyti leika í atvinnumöguleikum Vestfirðinga. Því miður er bróðurpartur fjármagns mótvægisaðgerðanna eyrnamerktur flýti framkvæmdum ýmiskonar.
Betur hefði farið á því að stærri hlutur fjármagns mótvægisaðgerða yrði nýttur til uppbyggingar náms á framhaldsstigi, jafnt bóklegs sem verklegs í stað flýtiframkvæmdanna. Þetta segi ég vegna þeirra um ræðu sem hefur verið mjög ágeng í samfélaginu, að grunngerð atvinnulífs á Vestfjörðum sé ekki nógu fjölbreytt, að fólk mennti sig í æ ríkari mæli burt af svæðinu. Sem og að unga fólkið okkar skili sér ekki til baka að framhaldsnámi loknu.
Í því samhengi er sú skýring gjarnan gefin að laun og fábreytni í atvinnulífi sé ekki sú hvatning sem laði ungt fólk til að setjast að á Vestfjörðum.
Með því að fjárfesta í framtíðinni, sem og þekkingu og verkkunnáttu heimamanna næst vonandi sá árangur sem þarf til að atvinnuuppbygging og mannlíf á Vestfjörðum nái sömu fótfestu og áður.
En því miður höfum við einnig horft upp á það að laun almennt í fjórðungnum hafa dregist verulega aftur úr, - en við því þarf sömuleiðis að sporna með öllum tiltækum ráðum.
Það á ekki að líðast að fyrirtæki og stofnanir með aðsetur á höfuðborgarsvæðinu sem hingað flytja starfsemi sína, skuli í mörgum tilfellum ekki greiða sömu laun fyrir sömu störf og gert er á stór Reykjavíkursvæðinu. Þetta veikir stöðu launþega í fjórðungnum og minkar þörfina fyrir virka samkeppni á vinnumarkaði. Vestfirskir atvinnurekendur mega ekki falla í sömu gryfju og þessir aðilar og þannig grafa undan grunnstoðum sínum.
Vestfirðingar eiga ekki að sætta sig við neitt meðalmennskuhjal þegar tal berst að eflingu atvinnulífs í fjórðungnum. Nokkur uppbygging nýrra atvinnugreina hefur þó átt sér stað á Vestfjörðum, má í því sambandi nefna gríðarlega aukningu í ferðaþjónustu, sérstaklega tengdri sjávarútvegi. Á þessum vettvangi eru væntanlega enn fleiri sóknarfæri sem og enn frekari landvinningar.
Sveitafélögum á Vestfjörðum ber skylda til að styðja við og hlúa að nýsköpun í atvinnulífi í vestfirskum byggðarlögum, og þannig tryggja þá fjölbreytni í grunngerð atvinnulífs í fjórðungnum sem okkur er nauðsynleg inn í framtíðina.
En stuðningurinn við ný fyrirtæki má ekki ganga svo langt að rótgróin fyrirtæki, burðarásar í atvinnulífi í fjórðungnum, gleymist og hverfi frá Vestfjörðum með alla sína starfsemi.
Í þessu samhengi verða sveitafélögin að leggjast á eitt, til að skapa nýjum jafnt sem rótgrónum fyrirtækjum, þá aðstöðu sem þau þurfa til að þróast og blómstra áfram. Leggja verður til hliðar áratuga langar krytur í samgöngu- og vegamálum innan fjórðungsins ef þetta torfæra svæði á að þjóna íbúum þess sem eitt atvinnu- og þjónustusvæði.
Sömuleiðis þarf að auðvelda fyrirtækjum sem skapa störf í framleiðslugreinum að koma vörum sínum á markaði. Forgangsmál í þeim aðgerðum ætti að vera jöfnun flutningskostnaðar og virk samkeppni í flutningum til og frá Vestfjörðum
Þá þurfa fyrirtæki einnig að búa við stöðugleika sem og jafnvægi í efnahags- og atvinnumálum, en verulega hriktir nú í þeim stoðum. Þessi stöðugleiki á einnig að tryggja launþegum aukið atvinnuöryggi.
Þessu var nýgerðum kjarasamningum einmitt ætlað að stuðla enn frekar að. Þetta jafnvægi er okkur öllum nauðsynlegt til að almennur kaupmáttur launa haldist áfram.
Það voru ekki síður vinnuveitendur en launþegar á almennum vinnumarkaði sem gerðu miklar væntingar um betri tíð þegar unnið var að endurnýjun kjarasamninga fyrr í vetur. Ekki voru væntingarnar verkalýðshreyfingarinnar síðri vegna aðkomu ríkisstjórnar að samningsgerðinni.
Þar voru mestar vonir bundnar við raunverulegar kjarabætur til lág- og millitekjuhópa í þríhliða kjarasamningi launþega, vinnuveitenda og ríkisvaldsins. Var þar sérstaklega horft til breytinga á skattaumhverfi þeirra sem lægstar hafa tekjurnar sem og úrbótum í húsnæðismálum.
Vonbrigðin urðu þeim mun meiri þegar ljóst var að umbætur í skattamálum launþega yrðu ekki meiri en raunin varð, 7000 króna hækkun persónuafsláttar út kjörtímabilið er staðreynd - staðreynd sem kom eins og blaut tuska í andlit launþega.
Með skýrum og óyggjandi hætti var gefið í skin að ríkisstjórnin væri ekki í samningaviðræðum við verkalýðsfélögin um skattamál, við mættum í raun þakka fyrir að fá þó þessa rausnarlegu hækkun á persónuafslætti.
- Kröfur verkalýðshreyfingarinnar á atvinnurekendur og ríkisstjórn voru mjög sanngjarnar og skýrar:
Gerðar voru kröfur um mannsæmandi framfærslu - umtalsverða hækkun lægstu kauptaxta - leiðréttinga til þeirra sem hafa setið eftir í launaþróun ásamt auknum orlofs- slysa og veikindarétti.
Hækkun skattleysismarka, tekjur undir viðurkendum fátækramörkum væru gerðar skattfrjálsar, sem og að til kæmu verulegar úrbætur í húsnæðismálum í formi hækkunar vaxta- og húsaleigubóta.
Voru þetta kannski of hóværar kröfur? NEI - því fer víðs fjarri.
Í dag stöndum við frammi fyrir því að gjaldfelling kjarasamninga er orðin staðreynd - að óbreyttu bendir flest til þess að nýgerðir kjarasamningar verði ekki framlengdir 1.mars 2009.
Launþegum öllum á að vera tryggð sú kjarabót sem samið var um í nýgerðum kjarasamningum og enginn afsláttur gefinn þar af.
Við núverandi aðstæður á ekkert annað að vera í spilum launþega en krafan um tafarlausa endurskoðun kjarasamninga með rausnarlegri þátttöku ríkisstjórnarinnar .
Verðbólguhraði á ársgrundvelli er nú á hraðri leið í átt að 20% markinu - og ekki er að sjá að úr rætist að óbreyttu. Þar hefur hávaxtastefna seðlabanka Íslands virkað sem olía á verðbólgueldinn og aukið enn frekar á vaxtaokur heimila landsmanna frekar en slá á ört vaxtandi efnahagsvanda.
Ekki sér enn fyrir endann á stöðugum stýrivaxtahækkun bankans sem skila engu til launþega, nema auknum útgjöldum og enn frekari skuldsetningu .
Þar á bæ þurfa menn að stíga niður úr fílabeinsturninum og opna augun fyrir því hvaða áhrif þessi gjörningur hefur haft. Gleðibankaþinkan er farin að gera vart við sig, ekki bara hjá fjármálafyrirtækjum og fjárfestum, - heldur einnig inn á heimilum landsmanna með skelfilegum afleiðingum.
Allt tal um Evru væðingu og inngöngu í evrópubandalagið þarfnast enn frekari athugana við. Við núverandi aðstæður og undanfarið þensluskeið hefðu vextir Evru svæðisins virkað sem enn frekari olía á núverandi verðbólgubál frekar en koma okkur til bjargar. Og hverjir færu verst út úr því? - Jú það væru launþegar sem borguðu brúsann - að vanda.
Það er óráð að fara á taugum í þeim efnahagsumbrotum sem nú dynja á landsmönnum og líta á viðræður um inngöngu í Evrópubandalagið sem einhverja töfralausn til björgunar heimatilbúins efnahagsvanda.
Verstu afleiðingarnar fyrir þjóðina væru að okkar verðmætu auðlindir yrðu afhentar til ESB á silfurfati. Með þeim gjörningi hefðum við ekkert um nýtingu auðlinda okkar að segja í framtíðinni.
NEI - Hér verða stjórnvöld að grípa inn í með öðrum hætti. Frumkvæði og áræðni þarf að vera þeirra helsta leiðarljós, ein af aðgerðunum gæti falist í því að taka upp flatan tekjuskatt, jafnt á einstaklinga sem og fyrirtæki.
Sú bylting í skattamálum gæti einmitt orðið sú leiðrétting og innspýting sem efnahagslífið og launþegar þarfnast við núverandi aðstæður .
Sú staðreynd að heimilin í landinu skuli ávalt þurfa að taka á sig stöðugar hækkanir þegar á móti blæs í efnahagslífi okkar er með öllu óþolandi.
Ekki nutu heimilin góðs af sterkri stöðu krónunnar og hagstæðum gengismun síðustu missera. - Þar var öðru nær !
Samstaða á meðal launþega hefur sjaldan verið nauðsynlegri en einmitt í þeim efnahagsumbrotum sem nú ganga yfir íslenskt efnahag- og atvinnulíf. Sá tími að verkafólk sætti sig við smáskammtalækningar í kjaramálum er liðinn.
- Hinn almenni launþegi hefur jafnan rutt brautina í velferðarmálum og á ekki að þurfa þiggja molana sem velta út af velferðarborðinu.
Ef ekki væri fyrir tilstuðlan launþega og stéttarfélaga á Íslandi, þá byggju landsmenn ekki við það velferðarkefi sem við búum við í dag.
- Samtök launþega verða að finna að baklandið sé traust og fylgi forustunni að málum þegar kemur að því að berjast fyrir því sem okkur öllum þykir sjálfsagt, því að tryggja okkur sjálfum og fjölskyldum okkar mannsæmandi framfærslu.
- Það á enginn að þurfa að lifa við fátækramörk í því velferðarsamlagi sem byggt hefur verið upp hér á landi. Börnum allra landsmann eiga að vera tryggð jöfn tækifæri í leik og námi óháð tekjum foreldra.
- Látum ekki slá ryki í augu okkar með gylliboðum um fleiri krónur í launaumslagið, þeim boðum fylgir jafnan réttindamissir hjá hinum almenna launamanni.
- Tökum því fullan þátt í störfum stéttarfélaganna sem og samfélaginu öllu og styrkjum þannig stöðu okkar í baráttunni fyrir bættari lífskjörum.
-Launþegar - Stöndum vörð um réttindi okkar og kjör, þetta eru ekki sjálfgefin lífsgæði, fyrir þeim hefur verið barist í hart nær 100 ár, gerum því slagorð 1. maí að okkar - VERJUM KJÖRIN !