Translate to

Pistlar

Hátíðarræða Finnboga Sveinbjörnssonar 1. maí 2016

Kæru félagar ! Til hamingju með daginn!

Fyrsta maí komum við saman til að fagna alþjóðlegum baráttudegi Verkafólks! Í dag komum við líka saman og fögnum því að fyrir 100 árum hófst hin eiginlega barátta verkafólks á Íslandi fyrir bættum kjörum.

Samstaða í 100 ár – sókn til nýrra sigra er yfirskrift dagsins. 

Í yfirskriftinni felst hvatning til verkalýðshreyfingarinnar og alls launafólks að halda baráttunni áfram. Samstaða launafólks síðustu 100 ár hefur gert verkalýðshreyfinguna að mikilvægasta aflinu í baráttunni fyrir bættum kjörum og réttindum á íslenskum vinnumarkaði. Þess vegna er nauðsynlegt að við minnumst baráttunnar. Minnumst þeirra fórna sem fólkið okkar hefur fært og þess mikila árangurs af starfi launafólks sem við njótum í dag.

Hefði ekki komið til baráttuvilja okkar fólks fyrir 100 árum þá byggi samfélagið ekki við það velferðar- og menntakerfi sem öllum þykja sjálfsögð og eðlileg mannréttindi.Við megum aldrei gleyma að það voru verkafólk og sjómenn sem lögðu grunninn að velferð okkar. Það var okkar fólk sem með þrautlausri baráttu og samstöðuna að vopni tryggði okkur öll þau réttindi sem við búum við í dag.

Því miður er það svo að í þessu mikilvægu réttindi er sótt úr mörgum áttum. Ekki bara úr hendi misvitra stjórnmálamanna eða atvinnurekenda heldur einnig úr okkar eigin röðum.

Getur verið að við viljum  hverfa aftur til þeirra tíma sem réttindi verkafólks og sjómanna voru fótum troðin? Viljum við minnka veikindarétt og bótarétt atvinnulausra? Viljum við skerða hvíldartíma og lengja vinnudaginn? Viljum við sleppa fæðingarorlofi  og fækka orlofsdögum ?   

Mitt svar er einfalt; Við sjálf megum aldrei sofna á verðinum. Við megum aldrei vera tilbúin að gefa afslátt af okkar eigin réttindum. Við megum ekki sitja aðgerðarlaus hjá og láta taka réttindin frá okkur, réttindi sem barist var fyrir með blóði, svita og þúsundum tára. Við verðum og eigum sjálf að vera tilbúin að færa fórnir til að verja réttindin okkar.  Allt annað er afturhvarf til fortíðar sem ekkert okkar vill að verði að veruleika.

Segjum NEI við félagslegum undirboðum á vinnumarkaði og forðum því að afkomendur okkar upplifi réttleysið sem okkar fólk barðist fyrir að losna undan fyrir 100 árum. Síst viljum við að börnin okkar þurfi að búa við tvöfalt réttindakerfi. Það skulum við ALDREI samþykkja báráttulaust.Við eigum öll að sýna samstöðu í verki, við megum aldrei snúa baki við áframhaldandi baráttu fyrir bættum kjörum og réttindum launafólks.

Það var fyrst og síðast fyrir samstöðu verkafólks og sjómanna fyrir 100 árum sem tókst loks að brjótast undan kúgun sem hafði viðgengist í árhundruðir. Kúgun með algjöru húsbóndavaldi þar sem réttindi almennings voru fótum troðin. Þeir sem minna máttu sín voru sannarlega ofurseldir húsbændum og atvinnurekendum sem máttu nýta  „sitt fólk” eins og þræla allt frá tímum vistarbandsins. Mannréttindi verkafólks og vinnuhjúa voru fótum troðin allt þangað til hjúalögin voru sett árið 1928, en lögin bönnuðu misnotkun á vinnuafli.

Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist fá stéttarfélögin reglulega inn á borð til sín ljótar sögur af því hvernig notast er við hótanir sem stjórntæki til að berja niður samstöðu launafólks. Verkafólk má ekki alls láta etja sér saman líkt og var ástundað fyrir miðja síðustu öld þegar þrengdi að á vinnumarkaði. Á þeim tíma var reynt að brjóta niður baráttuvilja verkafólks með öllum tiltækum ráðum. Við megum aldrei láta slíkt henda aftur, til of mikils hefur verið barist.

Kæru félagar!

Öllum má vera ljóst að í landinu búa í raun tvær þjóðir, Silfurskeiðarþjóðin og svo við hin, almennt launafólk. Silfurskeiðarþjóðin kyrjar í sífellu sömu „möntruna“ Allt má sem ekki er bannað ! Skiptir þá engu um siðferði enda hefur Silfurskeiðarþjóðin sjálf mótað leikreglurnar sem okkur hinum er ætlað að fara eftir, en þeim ekki.

... „ Ef maður vill stela í þjófafélagi, þá verður að stela samkvæmt lögum; og helst hafa tekið þátt í að semja lögin sjálfur“ Svo vitnað sé í Atómstöð nóbelskáldsins í þessu samhengi.

Silfurskeiðarþjóðin hefur sannarlega fengið mest af sínum réttindum á silfurfati og nýtur forréttinda í skattaskjólum og EHF væðingu samfélagsins. Því miður kemur það aftur og enn í ljós að við búum í samfélagi þar sem tryggt er að þeir ríku verði ríkari og fátæku fátækari.

Megin áhersla hefur nefnilega verið lögð á að bjarga fjármagnseigendum og koma þeim að kjötkötlunum að nýju. Að þessu er áfram unnið leynt og ljóst og skýrasta dæmið um viðvarandi siðleysi er hvernig fyrrum eigendum banka og stórfyrirtækja hafa verið tryggð áhrif og völd í fjármálalífi Íslendinga á nýjan leik.

Svo er hneykslast á því að okkur sé nóg boðið mætum til mótmæla fyrir framan Alþingi. Ég er í raun mest undrandi hvað fólk er rólegt eftir það siðrof og þann hroka sem hefur viðgengist gagnvart almenningi í landinu. Ísland verður ekki byggt upp með stjórendum gömlu svikamillunar haldandi í alla spotta.  Við bjuggum ekki til þessa óteljandi fjármálagjörninga sem ekki sér fyrir endann á hvernig verða leystir.

Við sættum okkur ekki við að eiga sópa upp óþverranum sem þessir snillingar hafa búið til. Almenningur í landinu lætur ekki bjóða sér að standa einn í tiltekinni. Er það virkilega þannig samfélag sem við viljum byggja ? Ég segi Nei og aftur Nei !

Kæru félagar !

Enn er barist, og nú berjumst við öll hlið við hlið gegn siðrofi valdhafa. Mótmæli undanfarinna vikna staðfesta að við erum öll orðin langþreytt á misskiptingu og svikum. Almennt launafólk er orðið langþreytt á að vinna myrkrana á milli en eignast samt aldrei neitt. Ekki fáum við afskrifað! Við öll erum orðin þreytt á óheiðarleika, gleymsku og fullkomnu siðrofi. Við erum orðin þreytt á að hlutirnir lagist ekki. 

Launafólk þarfnast öflugs málsvara á Alþingi. Málsvara sem hefur þann pólitíska tilgang að berjast fyrir og tryggja réttindi íslenskrar alþýðu. Við sjálf eigum og verðum að taka næsta skref og tryggja bein áhrif launafólks inn á Alþingi. Ef við tökum ekki sjálf beinan þátt í baráttunni getum við ekki búist við að núverandi stjórnmálaflokkar hafi okkar hagsmuni að leiðarljósi. Eingöngu þannig höfum við sjálf tækifæti til að uppræta það siðrof og spillingu sem viðgengist hefur í íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi.

Ef við sannarlega viljum breytingar þá verðum við að taka slaginn. Með þeim hætti og engum öðrum tryggjum við launafólki enn stærri sigra í framtíðinni. Með baráttu og samstöðu munum við ná fram okkar markmiðum. Gleymum því ekki að réttindin duttu ekki af himnum ofan, við fengum þau ekki á “silfurfati”. Megi „Sókn til nýrra sigra“ og áframhaldandi órofa samstaða skila okkur enn fleiri og stærri sigrum næstu 100 árin.

Verkafólk og sjómenn til hamingju með 100 ára baráttu fyrir bættum kjörum.

Deila