Translate to

Pistlar

Krafa um tímabundna aftengingu vísitölu neysluverðs aldrei brýnni

Eitt af brýnustu framhaldsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar hlýtur að vera tímabundin aftenging vísitölu neysluverðs. Þannig verði hægt að draga úr jaðaráhrifum skattahækkana sem voru samþykkt af Alþingi í gærkvöldi. Verði þetta ekki gert mun allt tal um hina margfrægu skjaldborg heimilanna snúast upp í andhverfu sína.  Við höfum ekki farið varhluta af hækkuðum álögum á eldsneytisverð á undanförnum vikum. Það munar alla um þær 16 krónur sem bensínlíterinn hefur hækkað síðustu tvær vikur. Álögur á alla landsmenn í formi aukinna jaðarskatta verður að linna.

Öllum þessum hækkunum er dembt beint út í verðlagið með þeim afleiðingum að vísitala neysluverðs hækkar. Við vitum öll hvað það þýðir, jú, lánin okkar hækka, höfðu þau ekki hækkað nóg ?  Verðbólgan sem hefur verið á undanhaldi síðustu vikur fær nú aukið fóður til að hefja sig til flugs á nýjan leik með afleiðingum sem koma við okkur öll. Sem dæmi má nefna að aðgerðir gærkvöldsins hækka afborganir á 20 milljóna láni um u.þ.b 100 þúsund á ársgrundvelli, þá hækkar rekstur heimilisbílsins um 25- 30 þúsund. Aðgerðirnar hafa því rýrt lífskjörin á Íslandi svo um munar.

Þá er líka hægt að spyrja, hvaða skilaboð er verið að senda aðilum vinnumarkaðarins sem sitja nú að rökstólum og vinna að sameiginlegri lausn í kjaramálum?  Skilaboð ríkisstjórnarinnar eru augljós, henni kemur okkar vandi ekki við ! Fulltrúar ASÍ og SA mættu fyrir þingnefndir í gærkvöldi og mótmæltu frumvarpinu þar, enda hafa viðræður þeirra snúist út á að ná fram sátt með aðkomu ríkisstjórnarinnar á jákvæðan hátt. Framtíðarmöguleikar efnahagslegrar sáttar eiga ekki eingöngu að hvíla á herðum launþega í landinu. 

Það er ekki margt sem réttlætir þessa 2,7 milljarða tekjuaukningu fyrir ríkissjóð ef hún á eftir að kosta heimilin í landinu 7,8 milljarða í gegnum hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána. Þá eru ótaldir u.þ.b 4 milljarða sem ríkið nær til sín í formi hækkunar vörugjalda. Framtíð heimila landsmanna er ekki björt ef laga á fjárlagahallan með auknum neyslusköttum sem leiða af sé hækkun vísitölunnar og þar með verðbótanna. Við verðum að vona að ríkisstjórnin snúi af villu og bregðist við þeim vanda sem þessar álögur valda heimilunum. Ef það verður ekki gert þá væri hægt að fullyrða að ríkisstjórnin væri strax komin úr takt við fólkið í landinu.
Deila