Translate to

Pistlar

Ræða Lilju Rafneyjar 1. maí 2015 á Suðureyri

 

Góðir félagar til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkafólks.

Nú sem aldrei fyrr skiptir máli að standa saman í baráttunni fyrr bættum kjörum launafólks þegar alvarleg verkfallsátök eru í landinu og óvissa ríkir um hvenær samningar munu takast.

 Félagar í Starfsgreinasambandinu og þar á meðal  launafólk í Verkalýðsfélagi Vestfirðinga hóf verkfallsaðgerðir í gær og framundan eru regluleg sólarhringsverkföll í maí þar til allsherjarverkfall  skellur á 26. maí nk. ef ekki næst að semja fyrir þann tíma. Vonandi tekst að semja sem fyrst þó menn séu ekki alltof bjartsýnir í dag á stöðu mála þegar SA sýna engan lit á að mæta sanngjörnum kröfum SGS og leggja ekkert nýtt fram umfram 3.5 % launahækkun sem er 7.490 kr. hækkun á mánuði fyrir skatta.

Verkföllin munu hafa áhrif á fjölda vinnustaða út um allt land en það vinna um 4 þúsund manns í fiskvinnslu í landinu og fjöldi annara starfstétta innan SGS munu líka leggja niður vinnu.

Innan SGS eru 10 þúsund félagar sem að stærstum hluta eru láglaunastéttir sem gera þá hógværu kröfu að á næstu þremur árum hækki grunnlaun þeirra á mánuði úr 214 þúsund krónum í 300 þúsund kr á mánuði.

Í vikunni birtist könnun hjá Gallup þar sem kemur fram að tæp 92 % landsmanna styður þessa kröfu félaga innan SGS  sem eru sterk skilaboð til viðsemjenda um að ekki verður lengur við unað að þeim lægst launuðu í þjóðfélaginu sé gert að lifa á launum sem duga enganveginn til framfærslu og eru í raun okkur sem þjóð til skammar.

Það var athyglisvert að ekki var marktækur munur á stuðningi við 300 þúsund kr lágmarkslaunin á milli mismunandi tekjuhópa eða eftir landssvæðum. Meiri stuðningur var þó á meðal kvenna við kröfuna og nefndu konur að launin þyrftu að vera hærri en 300 þúsund kr. á mánuði.

Það kemur kannski ekki á óvart því konur halda oftar en ekki um heimilisbudduna og sjá oftar um innkaup til heimilisins og heimilisbókhaldið.

Harpa Njálsdóttir félagsfræðingur frá Súgandafirði skrifaði góða grein á dögunum þar sem hún rekur hve raunverulegur framfærslukostnaður er í landinu með þeim neysluviðmiðum sem notuð eru í Velferðarráðuneytinu.

Þar kemur skýrt fram að það lifir enginn af 214 þúsund kr á mánuði með mannsæmandi hætti og þó að launin myndu hækka í 300 þúsund kr á þrem árum þá yrðu útborguð laun að frádregnum sköttum og launatengdugjöldum um 230 þúsund kr á mánuði. Það eru nú öll ósköpin sem farið er fram á !

Ég tel að ríkið eigi að lækka skatta í neðsta skattþrepinu og koma þannig til móts við þennan hóp en í stað þess hefur ríkisstjórnin aflétt auðlegðarskattinum af þeim tekjuhæstu upp á tugi milljarða króna og fjármálaráðherra lýsti því yfir á fundi með stóriðjunni að það væri forgangsmál að afnema raforkuskatt uppá 1.6 milljarða af álfyrirtækjunum en hvað með kjör launafólks ?

Það eru kaldar kveðjur sem launafólk fær úr ýmsum áttum þessa dagana.

Fjármálaráðherra lét einnig hafa það eftir sér fyrir nokkrum dögum að mögulega væri að búið að jafna kjörin of mikið í landinu. Ætli launafólk sé sammála þeirri skoðun ráðherra að hugsanlega séu 214 þúsund kr á mánuði of há laun ! Það er bara til skammar að láta svona útúr sér.

Landsbankinn  sendi frá sér greiningu nýlega þar sem hann fær það út að á síðustu 17 árum hafi lægstu laun hækkað úr 70 þúsund kr á mánuði í 214 þúsund kr sem þýði kaupmáttaraukningu uppá  70 % á þessu tímabili. Þetta er eintóm blekking það sem fólk fær fyrir mánaðarlaunin í dag í samanburði við það sem það fékk fyrir 17 árum er rétta mælingin og það getur engan veginn staðist að launafólk fái 70 % meira á mánuði fyrir laun sýn í dag en það gerði fyrir 17 árum. Launataxtar hafa verið úr takti við allan veruleika allt of lengi þeir verða að endurspegla raunverulegan kostnað við það að geta lifað sómasamlegu lífi.

 

Seðlabankinn hamrar á því að laun megi ekki hækka umfram 3.5 % því þá sé voðinn vís og verðbólgan fari af stað.  Láglaunafólki hefur alltaf verið stillt upp við vegg þegar kaupkröfur þeirra eru annarsvegar og það látið axla ábyrgð á stöðuleikanum í þjóðfélaginu meðan aðrir þjóðfélagshópar geta skammtað sér laun óáreittir.

 

 

Atvinnurekendur verða líka sjálfir að bera ábyrgð á því að launahækkanir fari ekki beint út í verðlagið og sjá til þess að laun þeirra og annara stjórnanda séu í einhverjum takti við laun almennra starfsmanna.

Bankabónusar voru vel þekktir hér fyrir Hrun og þar rökuðu menn til sýn fjármunum á kostnað almennings í landinu þar til allt fór á hausinn.

 Nú ætla stjórnvöld aftur að opna á að leyfa þessa háu bónusa í fjármálakerfinu sem gerir ekkert annað en að misbjóða almennu launafólki í landinu og að ýta undir græðgisvæðingu þeirra sem geta skammtað sér laun á kostnað annara. Við þurfum ekki á öðru Hruni að halda það fyrra ætti að hafa kennt okkur að græðgi og misskipting endar bara á einn veg þ.e.a.s. með ósköpum.

Góðir félagar það fer enginn í verkfall að gamni sýnu það er grafalvarleg ákvörðun fyrir þá sem standa í verkfallsátökum og fyrir alla þá sem verkföllin bitna á. Verkfallsvopnið er neyðarvopn sem fara verður varlega með - en þeir tímar koma eins og núna að ekkert dugar annað en að sýna fram á að verkafólk ætlar ekki að vera einhver afgangsstærð sem hirðir brauðmolana sem verða eftir þegar búið er að skipta þjóðarkökunni upp með óréttlátum hætti. 

Það er ekki skrýtið að fólki ofbjóði þegar stærstu fyrirtækin í landinu eins og Grandi hf greiða allt að 3 sinnum meira út í arðgreiðslur til eiganda sinna heldur en í veiðigjöld til þjóðarinnar og hækkar svo laun stjórnarmanna  um 33 % á mánuði úr 150 þúsund kr í 200 þúsund kr , en býður svo starfsfólki sýnu bara upp á íspinna í stað þess að mæta réttmætum launakröfum þeirra.                                     Hárbeittur ádeilusöngur fiskvinnslukonu á Akranesi á þessa framkomu fyrirtækisins hefur örugglega átt mikinn þátt í því að Verkalýðsfélaginu á Akranesi og Eflingu í Reykjavík tókst að ná fram samningum um að starfsfólk Granda hf fengi skerf af miklum hagnaði fyrirtækisins og er það vel.

Það hefst ekkert baráttulaust og launafólk verður að standa saman hvort sem það er innan Verk Vest, Félags opinberra starfsmanna , BHM eða annara samtaka launafólks því það vill oft verða að það er verið að etja launafólki saman og beita blekkingum til þess að rjúfa samstöðuna.

„Sameinaðir stöndum vér sundraðir föllum“ stendur svo sannarlega enn fyrir sýnu og á þessum erfiðu óvissu tímum er óskandi að samstaða launafólks skili árangri og bættum hag til þeirra sem verst eru settir.

SA verða að koma út úr skápnum og mæta kröfunni um 300 þús kr lágmarkslaun og horfast í augu við þann veruleika að það lifir engin af 214 þúsund kr á mánuðu.

 

Stjórnvöld verða líka að snúa af þeirri braut að auka misskiptingu í landinu með því að lækka skatta á hátekjufólki en leggja þess í stað matarskatt á almenning í landinu sem nemur allt að 11 milljörðum kr á ári sem bitnar mest á því fólki sem hefur lægri tekjur og eyðir stórum hluta tekna sinna í matarinnkaup.

Og sú fyrirætlan stjórnvalda að færa ákveðnum útgerðum í landinu makrílkvótann á silfurfati til eignar fyrir tugi milljarða króna er hneyksli og má alls ekki gerast enda er þjóðinni algjörlega misboðið og launafólki í raun sýndur hnefinn.

Efnahagur þjóðarinnar er sem betur fer að batna eftir erfið ár í kjölfar Hrunsins og nú ríður á að jöfnuður aukist í þjóðfélaginu og að þjóðarkökunni verði skipt með réttlátari hætti en verið hefur í gegnum árin.

Góðir félagar stöndum saman að því að gera samfélagið réttlátara.

 

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.

  1. Maí ræða á Suðureyri 2015.

 

Deila