Verk Vest sendir Bílddælingum baráttukveðjur
Starfsfólki Stapa var tilkynt á starfsmannafundi kl. 11:30 í gær að öllu starfsfólki væri sagt upp með með 1 mánaðar uppsögn. Þessi gjörningur er reiðarslag fyrir ekki stærra byggðarlag en Bíldudal með um 200 íbúa. Þarna er verið að segja 12 manns upp störfum, eða u.þ.b. 10% af vinnubæru fólki á Bíldudal sem tapar hluta og í sumum tilfellum öllu lífsviðurværi sínu. Ekki verður í fljótu bragði séð hverning hægt verður að koma þeim sem misst hafa vinnuna á Bíldudal í aðra vinnu á svæðinu, en það er von okkar að vinnuveitendur á svæðinu sjá sér fært að grípa þar inn í.
Ákveðin fyrirheit að hálfu sjórnvalda voru gefin þegar farið af stað með fiskvinnslu á Bíldudal fyrr á árinu, Því miður hefur það ekki gengið eftir. Erfiðlega hefur gengið að útvega hráefni til vinnslunnar og nú með niðurskurði á aflaheimildum í þorski var stoðunum endanlega kippt undan grundvelli þess að Stapar næðu einhverri fótfestu í vinnslu á Bíldudal.
Því miður hefur enn ekki tekist að koma Kalkþörungaverksmiðjunni í full afköst, en með tilkomu hennar var talið að um 10-12 ný störf myndu skapast á Bíldudal og fyrirheit um fleiri störf ef áætlanir um framleiðslu næðu fram að ganga. Það er ljóst að grípa verður til aðgerða þannig að ekki komi til þess að fólk þurfi að flytjast burt frá svæðinu í atvinnuleit.
Á meðan þetta ástand varir er rétt að minna félaga okkar á Bíldudal sem hafa misst vinnuna að skrá sig atvinnulausa hjá vinnumálastofnun á Ísafirði. Þar er sömuleiðis hægt að fá leiðbeiningar og frekari upplýsingar um störf og námskeið sem gætu verið í boði hjá stofnuninni. Einnig vill Verklýðsfélag Vestfirðinga minna á að félagar Verk Vest eiga rétt á styrkjum úr starfsmenntasjóðum hyggist þeir sækja önnur námskeið þ.m.t tómstundanámskeið.