Hátíðarávarp Lilju Rafneyjar á Suðureyri
Góðir félagar til hamingju með daginn á þessum alþjóðlega baráttudegi launafólks er okkur hollt að staldra við og meta stöðuna upp á nýtt,hvað hefur áunnist í kjarabaráttu liðinna ára , hvað mætti betur fara og hvað getum við lært af óbilandi þrautsegju og baráttuþreki fyrri kynslóða.
Nú á dögunum kom út fyrsta bindi af þremur um sögu verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum hún er skráð af Sigurði Péturssyni sagnfræðingi og bæjarfulltrúa í Ísafjarðarbæ og nefnist bókin „Vindur í Seglum" og spannar hún tímabilið 1890 - 1930.
Þar er rakin saga fyrstu verkalýðsfélaganna á Vestfjörðum og lýsir hún miklum og óbilandi kjarki og hugsjónaeldi þess fólks sem ruddu brautina við erfiðar aðstæður og fátækt - gegn harðsnúnu valdi atvinnurekanda þeirra tíma.
Annað bindið mun fjalla m.a. um upphafssögu Verkalýðs og sjómannafélagsins Súganda og hvet ég fólk eindregið til að eignast og lesa þessa merku sögu sem er ómetanlegur og dýrmætur fróðleikur um kjarabaráttu - atvinnuhætti og byggðasögu á Vestfjörðum
Sagan mun spanna vel yfir heila öld þegar öll þrjú bindin verða komin út.
Gífurlegar breytingar hafa orðið á rúmri öld frá því að þjóðin bjó við sára fátækt í það að verða ein af 10 ríkustu þjóðum heims sem hún er í dag þrátt fyrir bankahrun og kreppu í kjölfarið.
Ef vel er að gáð má samt finna nokkuð sammerkt með lífsbaráttu fyrri tíma og þeirri baráttu sem nútíma launa maðurinn stendur í á hverjum degi til að tryggja fjárhagslegt afkomuöryggi fjölskyldu sinnar.
Í dag eru margir fastir á skuldaklafa fjárhagslegra skuldbindinga vegna húsnæðis og bílakaupa einnig við kretitkorta fyrirtækin langt fram í tímann en fyrir rúmlega hundrað árum voru verkamennirnir bundnir á skuldaklafa við sína atvinnurekendur sem oftar en ekki ráku þá líka verslun og vöruflutninga ásamt útgerð og fiskverkun.Menn voru þar með nauðbeygðir til að fá vinnu sína greidda út í vörum og þjónustu eða í inneignarnótum hjá vinnuveitenda sínum og höfðu þeir því ekkert frelsi til að ráðstafa tekjum sínum sjálfir og voru í raun í vistarböndum.
Skúli Thoroddsen alþingismaður Ísfirðinga lagði fyrstur fram frumvarp um kaupgreiðslur í peningum árið 1893. Tilgangurinn var að auka frelsi daglaunamanna til að versla þar sem hagstæðast var en ekki vera bundinn atvinnurekanda sínum og verslun hans.
Frumvarpið mætti mikilli andstöðu í fyrstu og varð ekki að lögum fyrr en árið 1901.
Hinn almenni launamaður í dag hefur heldur ekki mikið frelsi til að ráðstafa tekjum sínum ,því eftir fastan kostnað við rekstur heimilis og fjölskyldu er lítið eftir ef það er þá nokkuð eftir til ráðstöfunar af útborguðum mánuðarlaunum hverju sinni.
Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði hafa verið lausir frá og með síðustu áramótum og samningaviðræður hafa nú siglt í strand og við blasa átök og verkföll ef allt heldur fram sem horfir. Enginn óskar sér þesss að þurfa að beita verkfallsvopninu nema sem neyðarúrræði en þegar verkalýðshreyfingin er höfð að leiksoppa og tækifæri til að ganga til samninga er spillt með því að Samtök Atvinnulífsins neita að skrifa undir samninga nú á dögunum nema breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu liggi fyrir og verði LÍÚ þóknanlegar þá er ekki nema von að mönnum sé nóg boðið.Þetta eru alveg ótrúleg vinnubrögð þar sem báðir aðilar voru orðnir sammála um launahækkanir og samninga til næstu 3 ára.
Samninganefnd ASÍ ákvað þá að slíta samningaviðræðum þar sem breytingar á kvótakerfinu hafa ekkert með almennar kjaraviðræður að gera. Allflestir landsmenn hafa haft miklar skoðanir á fiskveiðistjórnunarkerfinu en það eru að sjálfsögðu lýðræðislega kjörin stjórnvöld hverju sinni sem setja lögin í landinu og hvorki ASÍ-LÍÚ eða SA hafa umboð til að taka löggjafann í gíslingu.
Hvað kæmi þá næst væri þá ekki hægt að ganga frá kjarasamningum ef félög verslunar og þjónustu væru ósátt við Samkeppnislögin eða ef flutningafyrirtæki væru ósátt við Umferðarlögin eða vill LÍÚ kannski fá að endurskoða Sjórnarskrána við gerð næstu kjarasamninga.
Nei þetta er komið langt út fyrir það hlutverk sem aðilar vinnumarkaðarins hafa og mjög ólýðræðislegt að taka kjarasamninga í gíslingu með þessum hætti það sér hver heilvita maður.
En við skulum vona að Eyjólfur hressist og atvinnurekendur almennt láti ekki óbilgirni LÍÚ ráða ferðinni og endurmeti stöðuna upp á nýtt svo hægt verði að ganga til samninga.
Það sem við þurfum síst á að halda nú þegar við erum loks farin að sjá fyrir endann á kreppunni eru óábyrg vinnubrögð sem stefna launafólki í verkfallsátök með alvarlegum afleiðingum.
Launafólk á Vestfjörðum fór í langt og erfitt verkfall 1997 til að berjast fyrir réttlátri kröfu sinni um 100 þúsund króna lágmarkslaun nú 14 árum síðar eru lágmarkslaun aðeins um 165 þúsund krónur og krafan nú er að ná lágmarkslaunum upp fyrir 200 þúsund krónurnar á næstu þremur árum.
Ef atvinnuvegir landsins standa ekki undir þeim hógværu kröfum og vilja ekki ganga til samninga á þeim grunni , þá ráða einhverjir óskyldir hagsmunir ferðinni eins og t.d. yfirráðin yfir sameiginlegum sjávarauðlindum þjóðarinnar.
Launafólk hefur orðið fyrir miklum kjaraskerðingum í kjölfar hrunsins og verið tilneytt til að axla þær byrðar sem frjálshyggjupostularnir og
fjárglæframennirnir komu yfir á þjóðina en nú er þolinmæðin á þrotum og kominn tími til að auka kaupmátt launamanna og sína þar með raunverulegan vilja og samtakamátt við
að endurreisa samfélagið.
Misskiptingin var orðin gífurlega mikil í landinu fyrir hrun og við verðum að byggja nýtt samfélag á grunni jöfnuðar og félagshyggju og leggja til hliðar græðgi og sérhagsmuni sem við brenndum okkur svo illilega á við hrunið.
Við erum þegar upp er staðið öll á sama bát og eigum að geta búið öllum þjóðfélagsþegnum mannsæmandi lífskjör verandi ein af ríkustu þjóðum heims og að því markmiði skulum við öll vinna saman að.
Ég vil að lokum fara með nokkrar verkfallsrímur sem má finna í bókinni „ Vindur í seglum" en Hjálmar Hafliðason í Hnífsdal orti þær 1926 eftir verkfall það árið og voru rímurnar boðnar upp hjá verkalýðsfélaginu Baldri til fjáröflunar fyrir sjúkrasjóð félagsins.
Mjölnir skrækir, og margir kurra
Munu ef kaupið lækkar svo,
Á hann að sækja þorskinn þurra
Þurra í kampaníið sko?
Hlaut að stöðvast vitlaus vinna
Vildi enginn fara í slag
Verkstjórarnir værðum sinna
Við skulum reyna næsta dag.
Hann svo rann upp hýr og blíður
hölda vakti kaupdeilan,
Sást þar margur sveinninn fríður
Sýsli og varalögreglan.
Nú var ei um gott að gera
Gagnvart fögru hnöppunum
Reyna sig þó best að bera
Að báðum standa á löppunum
Pukrið ekki einir lengur
Eflið verklýðsfélagið
Gangi í það hver dáðadrengur
Og dásamlega kvenfólkið.
Lilja Rafney Magnúsdóttir