Reglur Verk Vest um innheimtu iðgjalda
Innheimta iðgjalda
Gjalddagi iðgjalda er 10. dagur næst á eftir iðgjaldamánuði og eindagi síðasti dagur þess mánaðar. Eigi greiðsla sér ekki stað innan mánaðar frá lokum iðgjaldatímabils, skal innheimta vanskilavexti skv. ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Verkalýðsfélag Vestfirðinga sendir út innheimtuviðvörun til fyrirtækja um vanskil þegar 30 dagar eru liðnir frá gjalddaga. Ítrekun er send út 30 dögum seinna (60 dögum frá gjalddaga) og 30 dögum seinna er send út aðvörun um innheimtuaðgerðir að skuldin fari í lögfræðiinnheimtu sé hún ekki greidd innan 15 daga. Sé skuldin því ekki greidd innan 105 daga frá gjalddaga er hún send til innheimtu.
Innheimta á kröfum byggðum á launagreiðandalista
Prenta skal út launagreiðandalista úr félagakerfi Verk Vest á 4 mánaða fresti ( 30. janúar, 30.maí og 30.september ) og kanna hverjir hafa ekki skilað iðgjöldum. Senda skal bréf til þeirra sem hafa ekki skilað síðustu þrjá mánuði eða lengur skv. lista. sem bent er á 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980, um um starfskjör launafólks,. að launagreiðanda og sjálfstæðum atvinnurekendum sé skylt að halda aftur af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags skv. þeim reglum sem kjarasamningar þess greina. Einnig skal með bréfinu fylgja afrit af stéttarfélagsskilagrein, óútfyllt. Framkvæmdastjóri/gjaldkeri skal leggja fram vanskilalista iðgjaldagreiðenda á stjórnarfundi í byrjun árs og einnig skal slíkur listi lagður fram í september ár hvert.
Verklagsreglur um meðferð afskrifta iðgjalda
a) Afskrifa skal í bókhaldi öll iðgjöld, sem félaginu er skylt að taka á sig jafnskjótt og niðurstaða í slíku máli liggur fyrir að mati innheimtuaðila félagsins.
b) Eigi sjaldnar en þrisvar á ári skal aflað skriflegra upplýsinga frá þeim lögmönnum, sem annast innheimtur fyrir sjóðinn og skal þar koma sérstaklega fram, ef þeir telja að einhverjar kröfur séu tapaðar eða í tapshættu.
c) Allar afskriftir iðgjalda skulu áritaðar og samþykktar af framkvæmdastjóra/gjaldkera.
d) Á fylgiskjali með afskrift skal koma fram tilefni afskriftar. Afskrift iðgjalda er því aðeins heimil að iðgjaldagreiðandi sé gjaldþrota og ekki sé að vænta greiðslu frá Ábyrgðarsjóði launa.
e) Nú nemur iðgjaldaupphæð, sem afskrifa þarf hærri fjárhæð en 1. millj. kr., skal þá leggja slíkar tillögur um afskriftir fyrir reglulegan stjórnarfund til samþykktar áður en þær eru færðar í bókhald.
f) Miðað er við að endurskoðað uppgjör á bókhaldi félagsins fari fram einu sinni á ári, pr. 31. desember. Samhliða uppgjöri skal framkvæmdastjóri/gjaldkeri leggja fram lista yfir allar afskriftir vegna iðgjalda. Stjórn sjóðsins skal síðan samhliða uppgjöri staðfesta þessar afskriftir.
Reglur þessar voru samþykktar á stjórnarfundi 6. september 2011