Verkalýðs- og sjómannafélagið Grettir, Reykhólum
Verkamannafélagið Grettir, Reykhólum var stofnað 15. júlí árið 1956. Það var samþykkt í Alþýðusamband Íslands 28. ágúst sama ár. Fyrstu árin voru félagsmenn milli 15 og 20, flestir voru þeir 47 í kringum 1993, en tíu árum síðar voru félagsmenn 26, þar af 16 konur.
Þéttbýli tók að myndast á Reykhólum á síðustu áratugum 20. aldar, einkum eftir að þar reis þörungavinnsla. Áður var Króksfjarðarnes miðstöð sveitarinnar og starfsfólk Kaupfélagsins og sláturhúss þess tilheyrði félaginu. Flestir félagsmanna verkalýðsfélagsins hafa atvinnu við þörungavinnsluna og dvalarheimili aldraðra á Reykhólum, auk annarra þjónustustarfa. Sjómenn hafa haft nokkra atvinnu af þangskurði fyrir vinnsluna og var nafni félagsins af þeim ástæðum breytt í Verkalýðs- og sjómannafélagið Grettir.
Áður starfaði verkalýðsfélag í Flatey á Breiðafirði, sem nú tilheyrir Reykhólahreppi. Þar hafði risið þéttbýli í tengslum við uppbyggingu útgerðar og fiskvinnslu á fyrri hluta 20. aldar. Verkalýðsfélag Flateyjar starfaði á árunum 1930-1961. Fyrsti formaður þess var Friðrik Salómonsson. Gegndi hann formannsstörfum allt til 1949.
Áberandi hefur verið hve konur hafa staðið framarlega í stjórn Verkalýðs- og sjómannafélagsins Grettis. Má sem dæmi nefna að formenn í félaginu frá 1992-2003 voru konur:
- Kristín Svavarsdóttir 1992, 1999-2000
- Erla M. Pálmadóttir 1993-1994
- Svanhildur Sigurðardóttir 1995
- Þórunn Játvarðsdóttir 1996-1999
- Ásdís Á. Sigurdórsdóttir 2000-2003
Verkalýðs- og sjómannafélagið Grettir á Reykhólum gekk til liðs við Verkalýðsfélag Vestfirðinga árið 2003 og starfar áfram sem deild í félaginu.
Heimildir
- Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 105. Ársskýrslur Grettis til ASV.