Translate to

Saga félagsins

Verkalýðs- og sjómannafélagið Súgandi, Suðureyri

Suðureyri. Suðureyri.

Í september árið 1931 fóru tveir af forystumönnum jafnaðarmanna á Ísafirði fótgangandi yfir Botnsheiði til Suðureyrar. Þar voru á ferðinni Hannibal Valdimarsson áður skólastjóri í Súðavík og Guðmundur G. Hagalín rithöfundur og bókavörður, báðir nýfluttir til Ísafjarðar. Þeir höfðu verið kosnir varaformaður og ritari Alþýðusambands Vestfirðingafjórðungs, eins og ASV hét þá, á þingi sambandsins fyrr á sama ári. Erindi þeirra var að breiða út boðskap verkalýðshreyfingarinnar í Súgandafjörð. Að kvöldi 21. september boðuðu þeir til fundar um verkalýðsmál í gamla samkomuhúsinu á Suðureyri. Þar var Súgandi stofnaður.

Stofnfélagar Verkalýðsfélagsins Súganda voru 14, en fljótlega fjölgaði í félaginu þannig að flestir verkamenn urðu félagsbundnir auk sjómanna og verkakvenna. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Guðjón Jóhannsson skósmiður, formaður, Bjarni G. Friðriksson sjómaður, gjaldkeri og Guðmundur Jón Markússon vinnumaður, ritari. Félagið gekk þegar í Alþýðusamband Íslands og var traustur samherji annarra félaga í Alþýðusambandi Vestfjarða gegnum tíðina. Sérstök sjómannadeild var stofnuð við félagið árið 1937 og fékk það þá nafnið sem festist; Verkalýðs- og sjómannafélagið Súgandi. 

Suðureyri árið 1943 (Ljósmynd Jóhannes Pálmason) Suðureyri árið 1943 (Ljósmynd Jóhannes Pálmason)

Verkalýðsfélagið Súgandi náði fljótlega viðurkenningu atvinnurekenda sem samþykktu skriflega samninga um kaup og kjör á félagssvæðinu. Ólíkt öðrum stöðum skarst sjaldan í odda milli samningsaðila á Suðureyri. Um það sagði Hannibal Valdimarsson síðar í afmælisgrein á 25 ára afmæli félagsins:

Einhver kynni að halda, að það bæri vott um deyfð og máttleysi félagsins, að það hefur aldrei lent í verkfalli á þessum liðna aldarfjórðungi. En svo er ekki. Þetta skýrist til fulls af tvennu: Hinni almennu þátttöku vinnandi fólks á sjó og landi í félaginu, og því láni Súgfirðinga, að hafa átt myndarlega, víðsýna og sanngjarna atvinnurekendur, sem töldu sig af sama stofni og verkafólkið sjálft. - Smákóngahroki og kúgunarandi hefur aldrei fest rætur í Súgandafirði.
(Vinnan 13.árg. 1956, 9.-12.tbl., bls. 4). 

Úr beitingaskúrnum hjá Freyju 1947, Guðni (Lalli) Guðjóns, Gissur, Ingólfur, Björgvin Alexandersson og Willy Blumenstein(Ljósmynd Jóhannes Pálmason)
Úr beitingaskúrnum hjá Freyju 1947, Guðni (Lalli) Guðjóns, Gissur, Ingólfur, Björgvin Alexandersson og Willy Blumenstein(Ljósmynd Jóhannes Pálmason)

Þó að kjarabaráttan hafi verið aðalviðfangsefni Súganda hefur félagið jafnframt látið önnur mál til sín taka á sviði menningar- og félagsmála. Félagið tók þátt hreppnefndarkosningum og lagði djúgan hlut í byggingu félagsheimilis á Suðureyri og síðar sundlaugarinnar.

Súgandi eignaðist eigið húsnæði í Bjarnaborg árið 1986 og færði það aukið líf í félagið, auk þess sem tónlistarskólinn á staðnum fékk inni í húsnæði þess. Löng hefð er fyrir því á Suðureyri að verkafólk og sjómenn haldi upp á barátttudag verkalýðsins, 1. maí, með veglegum hætti undir merkjum verkalýðsfélagsins.

Vinnslusalur frystihúss Freyju árið 1969.
Vinnslusalur frystihúss Freyju árið 1969.

Verkalýðs- og sjómannafélagið Súgandi stóð með öðrum félögum innan ASV að sameiginlegum samningum landverkafólks og sjómanna um fimm áratuga skeið. Félagið tók þátt í harðvítugu verkfalli 5 félaga á Vestfjörðum vorið 1997. Árið 2003 samþykkti Súgandi að sameinast Verkalýðsfélagi Vestfirðinga og starfar áfram sem deild í því félagi.

Formenn Súganda hafa verið

  • Guðjón Jóhannsson,
  • Guðmundur Kr. Guðnason,
  • Bjarni G. Friðriksson,
  • Hermann Guðmundsson,
  • Guðni Ólafsson,
  • Ingólfur Jónsson,
  • Þórarinn Brynjólfsson,
  • Eyjólfur S. Bjarnason,
  • Hólmberg Arason,
  • Jóhann Bjarnason,
  • Jens Ásmundsson,
  • Sveinbjörn Jónsson,
  • Lilja Rafney Magnúsdóttir

Heimildir

  • „Verkalýðsfélagið Súgandi 25 ára." Vinnan 13.árg. 1956, 9.-12.tbl., bls. 4.
  • Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 59 og 41.árg., 5.tbl., júní 1991.