Verkalýðsfélag Hólmavíkur
Verkalýðsfélag Hólmavíkur var stofnað 8. mars 1934 á Klossastöðum, en svo nefndist braggabygging í eigu Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík. Fyrsti formaður félagsins var Guðmundur Jónsson og með honum í stjórn voru Þorkell Jónsson, Jón Ottósson, Magnea Guðmundsdóttir og Guðbjörn Bjarnason. Guðmundur var helsti hvatamaður að stofnun félagsins og gegndi formennsku í níu ár.
Kaupfélagið var lengi helsti atvinnurekandinn á Hólmavík. Á fundinum þegar félagsstofnunin var rædd stóð kaupfélagsstjórinn upp og taldi enga þörf á slíkum félagsskap þar á staðnum. Þegar hann yfirgaf fundinn gengu margir með honum á dyr. Eftir sátu þeir sem kjarkinn höfðu, aðeins 6 eða 7 menn. Fljótlega sneru ýmsir til baka aftur inn á fundinn og félagið var stofnað. Að fjórum árum liðnum voru félagsmenn orðnir 138.
Á stofnfund Verkalýðsfélagins var mættur Jón Sigurðsson erindreki Alþýðusambands Íslands og aðstoðaði hann við fæðingu þess. Á þessum árum ferðaðist Jón um landið í erindum Alþýðusambandsins og vann að stofnun verkalýðsfélaga innan vébanda þess. Félagið á Hólmavík var fyrsta verkefni hans, eftir að hann réðst til alþýðusamtakanna. Kommúnistar sem réðu mörgum félögum á Norðurlandi létu félög sem þeir stjórnuðu oft sniðganga sambandið, en héldu uppi eigin sambandi, Verklýðssambandi Norðurlands. Félagsmenn á Hólmavík samþykktu strax aðild að Alþýðusambandinu sem var veitt 7. júní sama ár.
Verkalýðsfélag Hólmavíkur gekk til liðs við Alþýðusamband Vestfjarða árið 1955 og stóð upp frá því að samningum á sjó og landi í samfloti við önnur félög á Vestfjörðum. Aukin útgerð og rækjuvinnsla varð til að styrkja byggð á Hólmavík undir lok tuttugustu aldar, ólíkt þróuninni á mörgum stöðum á Vestfjörðum. Verkalýðsfélag Hólmavíkur undir forystu Helga Ólafssonar frá árinu 1982 tók virkan þátt í samningagerð ASV. Félagið keypti hús undir starfsemi sína og opnaði skrifstofu árið 1985. Í kjölfarið óx virkni félagsins; haldið var upp á 1. maí ár hvert, félagið stóð fyrir námskeiðum af ýmsu tagi og þjónusta við félagsmenn jókst. Félagarnir á Hólmavík stóðu ásamt fjórum öðrum félögum innan ASV að sjö vikna verkfalli landverkafólks vorið 1997. Verkalýðsfélag Hólmavíkur var eitt af stofnfélögum Verkalýðsfélags Vestfirðinga árið 2000.
Heimildir um Verkalýðsfélag Hólmavíkur
- „Verkalýðsfélag Hólmavíkur." Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 68.
- „Það sauð oft á keipum í verkalýðsbaráttunni áður fyrr." (Viðtal við Jón Sigurðsson). Vinnan, 3.tbl. 32.árg. 1982, bls. 6-8.
- „Deyfðin hefur kostað okkur mikið." (Viðtal við Helga Ólafsson). Vinnan, 2.tbl. 35.árg. 1985, bls. 6-7.