Translate to

Saga félagsins

Verkalýðsfélagið Vörn, Bíldudal

Bíldudalur. Bíldudalur.

Verkalýðsfélagið Vörn, Bíldudal var stofnað 11. júní 1931. Fyrsti formaður félagsins var Jón Magnússon á Jaðri. Með honum í stjórn voru Ingimar Júlíusson, Ebeneser Ebenesersson, Viktoría Bjarnadóttir og Jónína Ólafsdóttir. Viktoría átti hugmyndina að nafni félagsins. Undirbúningur félagsins hafði farið fram í barnaskólanum en stofnfundurinn var haldinn í Baldurshaga. Stofnfélagar voru um 70.

Til stofnfundarins boðuðu Páll Þorbjarnarson, síðar alþingismaður og Árni Ágústsson, þá blaðamaður á Alþýðublaðinu og frambjóðandi Alþýðuflokksins í Barðastrandarsýslu við Alþingiskosningarnar 12. júní sama ár. Páll ávarpaði fundinn, en Árni var fjarverandi. Alþýðusambandið og Alþýðuflokkurinn voru skiplagsleg heild á þessum tíma og gekk Vörn í Alþýðusamband Íslands þann 17. júní 1931.

Bíldudalur hafði risið sem blómlegt þorp um aldamótin 1900 þegar Pétur J. Thorsteinsson hóf þar mikil umsvif með þilskipaútgerð og saltfiskvinnslu ásamt fjölbreyttri verslun og þjónustu og framkvæmdum við bryggjur og hús. Meðal annars gaf hann út blaðið Arnfirðing árið 1901-2 og fékk Þorstein Erlingsson skáld til að ritstýra blaðinu. Íbúar á Bíldudal voru þá um 300. Eftir að Pétur flutti til Kaupmannahafnar og eignir hans gengu inn í hlutafélag sem nefndist Milljónafélagið gerðu verkamenn á Bíldudal tilraun til stofnunar verkalýðsfélags. Félagið nefndist Skjaldborg og var stofnað árið 1908. Formaður félagsins var Guðjón Guðmundsson, ritari Júlíus Nikulásson og gjaldkeri Finnur Jónsson. Félagið setti fram kröfu um 10 stunda vinnudag og 30 aura kaup á tímann, en þá hafði tíðkast að borga 20 aura á tímann og jafnvel lægra á veturna. Konur skyldu fá 18 aura á tímann í stað 10-12 aura. Gekk þetta eftir sumarið 1908, enda mikil vinna við fiskvinnslu og skipavinnu þar sem einn togara Milljónafélagsins var látinn landa á Bíldudal. Þegar kom fram á veturinn tók atvinnurekandinn að sniðganga félagsmenn og samþykktir þess og næsta sumar var lítil vinna í þorpinu og launin lækkuðu. Lagðist félagið þá niður og var merki þess ekki tekið aftur upp fyrr en 1934.

Verkalýðsfélagið Vörn setti þegar fram samningskröfur, meðal annars um reglulega útborgun launa í peningum og forgang félagsmanna til vinnu í hreppnum. Tímakaupið var 85 aurar hjá körlum en 55 aurar hjá konum. Þegar atvinnurekandinn í plássinu vildi ekki samþykkja þetta var boðað verkfall, en þá var látið eftir, og samningur undirritaður. Sagt var að skeytið um inngöngu Varnar í Alþýðusambandið þann 17. júní 1934 hafi ráðið þar miklu.

Verkalýðsfélagið Vörn var skjöldur og hlíf verkafólks á Bíldudal gegnum breytingar í atvinnu- og félagsmálum Arnfirðinga á 20. öld. Félagið átti í sínum hópi skelegga forystumenn, svo sem Ingivald Nikulásson og Ingimar Júlíusson bróðurson hans, sem skrifuðu merkar ritgerðir um félagsskap verkafólks á Bíldudal. Verkalýðsfélagið Vörn var eitt af þeim félögum sem stofnuðu Verkalýðsfélag Vestfirðinga árið 2002.

Formenn félagsins hafa verið:

Jón Magnússon á Jaðri
Ingivaldur Nikulásson
Ebeneser Ebenesersson
Guðmundur Arason
Gunnar Kristjánsson
Ingimar Júlíusson
Júlíus Jónasson
Gunnar Valdimarsson
---
Halldór Jónsson
Jón Björnsson
Helga Jóhannesdóttir
Andrés Garðarsson
Margrét Hjartardóttir
Jón Þór Sigurðsson
Haukur Kristinsson

Heimildir:
Skjalasafn Verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Deild 42.
„Verkalýðsfélagið Vörn, Bíldudal." Vinnan, afmælishefti 1966. Bls. 57-58.
Hannibal Valdimarsson. „Drög að sögu verkalýðssamtaka á Bíldudal." Vinnan 17. árg., 1-3, mars 1960. Bls. 3-11. (Um félagið Skjaldborg stofnað 1908).
Ingivaldur Nikulásson. „Verklýðshreyfing á Bíldudal." Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1986. 29. ár., bls. 74-86.