Aðrir styrkir
Fæðingarstyrkur
Sjóðfélagi sem greitt hefur verið af til sjóðsins síðustu 6 mánuði fær greiddan fæðingarstyrk sem nemur kr. 85.000. enda sé greitt iðgjald til félagsins af viðkomandi í fæðingarorlofi. Heimilt er að veita styrk vegna ættleiðingar barns skv. þessari grein.
Glasa og tæknifrjóvgun
Sjóðurinn greiðir styrk vegna glasa- eða tæknifrjóvgunar/tæknisæðingar allt að tvisvar sinnum til sjóðfélaga sem greitt hefur verið af til sjóðsins síðustu 6 mánuði. Greitt er allt að kr. 210.000. í fyrra skipti og kr. 105.000. í síðara skiptið en þó að hámarki 50% af kostnaði.
Dvöl á heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði
Sjóðfélagi sem greitt hefur verið af til sjóðsins síðustu 6 mánuði á rétt á styrk vegna dvalar á Heilsustofnun í Hveragerði. Styrkupphæð er að hámarki kr. 4.500 .- á dag í allt að 4 vikur á hverjum 12 mánuðum. Umsókn skal fylgja læknisvottorð frá þeim lækni sem sendi viðkomandi til dvalarinnar og dagsett kvittun frá Heilsustofnun.
Krabbameinsleit
Sjóðurinn endurgreiðir sjóðfélögum kostnað að fullu vegna krabbameinsleitar/hópleitar, hafi verið greitt af þeim til sjóðsins síðustu 6 mánuði.
Krabbameinsskoðun – framhaldsskoðun
Sjóðfélagi sem greitt hefur verið af til sjóðsins síðustu 6 mánuði á rétt á styrk allt að kr. 11.000.- í eitt skipti á hverjum 12 mánuðum, þó ekki meira en 100% af kostnaði. Styrkur er veittur vegna framhaldsrannsókna hjá Krabbameinsfélaginu og vegna blöðruhálsskoðana karla eða ristilsskimunar/speglunar.
Viðtalsmeðferðir
Styrkur vegna viðtalsmeðferðar hjá sálfræðingi, geðhjúkrunarfræðingi, félags- eða fjölskylduráðgjafa. Miðað er við að meðferðaraðili falli ekki undir afsláttarkjör hjá Tryggingastofnun, svo sem eins og t.d. 7 á við um geðlækna. Greitt er allt að kr. 8.500.,- fyrir hvert skipti vegna sjóðfélaga sem greitt hefur verið af til sjóðsins næstliðna 6 mánuði. Þó er aldrei greitt meira en sem nemur 50% af kostnaði í allt að 12 skipti á hverjum 12 mánuðum.
Dagpeningar vegna meðferðar
Vegna meðferðar út af áfengis-, spila- eða fíkniefnasýki sjóðfélaga greiðast að lokinni meðferð dagpeningar í mest 8 vikur, einu sinni á hverjum þremur árum. Greiða skal 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum. Um dagpeninga vegna meðferðar gilda a), e) og g) liðir 13. gr.
Dagpeningar vegna meðgöngu
Sé móður nauðsynlegt af heilsufars- eða öryggisástæðum að vera frá vinnu á fyrstu 7 mánuðum meðgöngutímans skal hún eiga rétt á dagpeningum eins og um veikindi væri að ræða. Í tilvikum sem ekki uppfylla skilyrði 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000, er heimilt að greiða dagpeninga á 9. mánuði meðgöngu. Greiða skal 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum. Um dagpeninga vegna meðgöngu gilda e), f) og g) liðir 13. gr.
Stjórn er heimilt að afnema styrki samkvæmt 17. Gr. tímabundið krefjist fjárhagsafkoma sjóðsins þess.