Glæsileg hátíðarhöld ábaráttudegi verkafólks
"Jafnréttið og jöfnuður er forsendan fyrir þeim gríðarlegum framförum sem þjóðfélagið hefur tekið á umliðinni öld. Sviptur því er maðurinn hvorki frjáls né fullvalda yfir eigin lífi. Því aðeins þróast þjóðfélagið fram á við og bætir stöðu og kjör hvers manns að sérhver geti verið frjáls og óttalaus í hugsun sinni og skoðun og búi við efnahag sem gerir það kleift. Jöfnuður er nauðsynlegur í efnahagslegum skilningi, en það er algerlega óhjákvæmilegt að valdinu í þjóðfélaginu sé þannig fyrirkomið og dreift að jafnréttið eigi við um það líka. Jafnvægi þarf að vera milli þegnanna og skýrar skorður þurfa að afmarka völd og áhrif einstakra hagsmunahópa.
Valdajafnvægi eða að minnsta kosti takmörkun á samþjöppun auðs og valds er helsta trygging almennings fyrir því að samheldið þjóðfélag byggt á jafnrétti og jöfnuði þróist áfram. Gætum að því að ekkert er eilíft og það á við um þann grundvöll sem verkalýðshreyfingin hefur með baráttu sinni náð fram og íslenskt þjóðfélag hvílir á. Það sem hefur áunnist getur tapast ef menn halda ekki vöku sinni... En það er ekki bara tekju- og eignaskiptingin sem þarf að leiðrétta, það er valdaójöfnuðurinn sem er höfuðviðfangsefnið. Það eru völd og áhrif fáeinna hundruða manna í þjóðfélaginu sem þarf að brjóta á bak aftur. Hin nýja yfirstétt er fólkið, sem í krafti auðsins sem kvótakerfið færir þeim, hefur eignast arðvænleg fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum, ræður áhrifamiklum fjölmiðlum, ræður og rekur sjómenn jafnt sem Seðlabankastjóra og drottnar yfir lífi fólks í hverju byggðarlaginu á fætur öðru og það er fólkið sem tekur upp símann og hringir í stjórnmálamennina og segir þeim fyrir verkum..." Ræðu Kristinns í heild sinni má lesa hér á síðunni.
Gunnhildur B. Elíasdóttir formaður Brynju deilda Verk Vest á Þingeyri fluttu okkur pistil dagsins. Gunnhildur ræddi þær skefjalausu tilfærslur á störfum fiskverkafólks sem Fiskvinnslufyrirtækið Vísir í Grindavík hefur boðað á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri ásamt virðingarleysi fyrir vinnuframlagi launamanna. Grípum hér niður í pistil Gunnhildar. ..."Það er nöturlegt og sárt að störfin manns, sem maður er búin að sinna af alúð og samviskusemi í meira en áratug eru bara allt í einu orðin óþörf og þeim bara hent út í tunnu eins og hverju öðru rusli... Það er nöturlegt og sárt að horfa upp á það að allt í einu eru staðirnir sem okkur þykir svo gott að lifa og starfa á, allt í einu eru þeir ekki nothæfir lengur. Það er nöturlegt og sárt að einn og sami aðilinn hafi fengið fyrirgreiðslu, fengið hlut af skattpeningum okkar allra, fengið húsakost og tæki á niðursettu verði, fengið yfirráð yfir auðlindinni sem við öll eigum, til þess að byggja upp fyrirtæki sem svo allt í einu á að þjappa saman á einn stað, og arðsemiskrafan ein ræður ferðinni, arðsemiskrafa örfárra einstaklinga sem vilja geta borgað sér og sínum sem allra allra mestan arð af öllu saman..." Pistil Gunnhildar mál lesa í heild sinni hér á síðunni.