Translate to

Fréttir

Kröfugerð Starfsgreinasambandsins afhent Samtökum atvinnulífsins

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands afhenti í gær fulltrúum Samtaka atvinnulífsins kröfugerð SGS vegna kjarasamninga á almennum markaði, sem verða lausir 1. nóvember næstkomandi. Á fundinum var rætt um fyrirkomulag komandi viðræðna og þau úrlausnarefni sem liggja fyrir samningsaðilum. Gert er ráð fyrir að formlegar viðræður byrji um miðjan ágúst og voru aðilar sammála um að ganga skipulega til verks. Hér að neðan eru nokkur meginatriði úr kröfugerð sambandsins.

Kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands byggir á grunni kjarasamnings SGS og SA sem tók gildi 1. apríl 2019. Kröfugerðin byggir á kröfugerðum 17 af aðildarfélögum SGS, sem samþykktar voru á félagslegum vettvangi eftir vandaða vinnu einstakra félaga.

Lögð er áhersla á áframhaldandi hækkun lægstu launa og að tryggja kaupmátt launafólks. Krónutöluhækkanir á laun, eins og samið var um í núgildandi kjarasamningi, skila launafólki mestum árangri og er það krafa SGS að samið verði um krónutöluhækkanir á kauptaxta í komandi kjarasamningum.

Við gerð síðustu kjarasamninga var horft til þess að samningarnir leiddu af sér lækkun vaxta. Seðlabankinn hefur nú í þrígang hækkað stýrivexti og Landsbankinn spáir því að þeir verði komnir í 4,25% árið 2023, eða á sama stað og þeir voru við gerð Lífskjarasamningsins vorið 2019. SGS mun ekki una því að vaxandi verðbólgu vegna aðgerðaleysis stjórnvalda í húsnæðismálum, og erlendra hækkana verða sett á herðar okkar félagsmanna.

Samtök launafólks sömdu um það í síðustu samningum að auka ráðstöfunartekjur launafólks með heildstæðum hætti, með krónutöluhækkunum, vaxtalækkunum og aðgerðum af hálfu stjórnvalda. Aðstæður þær sem nú eru í samfélaginu og efnahagsumhverfinu kalla á svipaða aðferðafræði og víðtækt samstarf og samráð til að bregðast við miklum vanda á húsnæðismarkaði, tryggja kaupmátt og öfluga grunnþjónustu um land allt.

Nú eru uppi þær aðstæður í samfélaginu að aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum mun skipta miklu máli við gerð þeirra. Stóraukin verðbólga, miklar verðhækkanir og mikill vandi á húsnæðismarkaði kalla á að stjórnvöld og SA taki höndum saman við samtök launafólks til að tryggja kaupmátt, húsnæði fyrir alla og öfluga grunnþjónustu um land allt.

Tímalengd samningsins mun ráðist af þeim aðstæðum sem verða í efnahagslífi í haust og innihaldi samningsins.

Deila