Félagsmenn Verkalýðfélags Vestfirðinga hafa búið við aukið atvinnuleysi allt frá haustmánuðum 2019. Harðast bitnar atvinnuleysið á ófaglærðu verkafólki í félaginu, sérstaklega þar sem atvinnuástand hefur verið ótryggt svo sem í minni byggðalögum á félagssvæðinu. Ekki hefur Covid19 gert okkar fólki auðveldara fyrir og má gera ráð fyrir að ástandið verði síst betra á komandi mánuðum.

Því miður á atvinnuleysi líka sínar skuggahliðar sem er áframhaldandi innflutningur á vinnuafli. Slíkt skýtur sannarlega skökku við í viðvarandi atvinnuleysi hér fyrir vestan. Við hljótum því að spyrja okkur hvað yfirvöldum og eða Vinnumálastofnun gengur til að á meðan okkar fólk á atvinnuleysisskrá getur ekki komist í almenna verkamannavinnu þá sé á sama tíma verið að flyta inn erlent vinnuafl til að fylla í skörðin þar sem vöntun er á starfsfólki?

Í ljósi þessa skorar framhalds aðalfundur Verkalýðfélags Vestfirðinga á Vinnumálastofnun að gera markvisst átak með fyrirtækjum á svæðinu þannig að hægt verði að tryggja þeim sem þegar eru á atvinnuleysisskrá vinnu, frekar en stuðla samtímis að auknum innflutningi á erlendu vinnuafli.  


Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hafnar með öllu hugmyndum um frestun launahækkana og skerðingu launa sem settar hafa verið fram af fulltrúum atvinnurekenda og stjórnvalda undanfarið. Miðstjórn ASÍ áréttar einnig mikilvægi þess að stjórnvöld etji ekki aðilum vinnumarkaðar saman nú þegar endurskoðun kjarasamninga stendur fyrir dyrum.

Kjaraskerðing ógnar ekki aðeins afkomuöryggi launafólks á krepputímum heldur hefur hún einnig skaðleg áhrif til frambúðar og mun bæði dýpka og lengja kreppuna. Bætt kjör launafólks skila sér bæði í aukinni neyslu, sem er afar áríðandi í samdrætti, og auknu skattfé, enda er launafólk helstu skattgreiðendur landsins. Samtök atvinnulífsins virðast hvorki hafa skilning á þörfum atvinnulífsins né almennings og kjósa heldur að fylgja hugmyndafræðilegri línu sem getur, ef henni er fylgt, haft í för með sér langvinnan skaða fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag.

Miðstjórn ASÍ mun berjast af fullum þunga fyrir kjörum launafólks og fyrir almannahagsmunum í þeirri kreppu sem nú stendur yfir.


þriðjudagurinn 1. september 2020

Andlát: Helgi Sigurjón Ólafsson

1 af 2

Fyrsti varaformaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga og fyrrum starfsmaður félagsins Helgi Sigurjón Ólafsson andaðist í gær, mánudaginn 31. ágúst eftir erfið veikindi.

Minningarathöfn verður haldin í Ísafjarðarkirkju laugardaginn 12.september kl.14.00 en útför verður gerð frá Keflavíkurkirkju fimmtudaginn 17.september kl.13.00.

Msza pożegnalna dla Helgiego odbędzie się w kościele w Ísafjordzie, w najbliższą sobotę 12 września o godzinie 14.00. W szczególności zapraszamy osoby, które nie mogą uczestniczyć w pogrzebie, a pragną pożegnać się z Naszym przyjacielem po raz ostatni.

Po mszy  serdecznie zapraszamy na kawę i ciasto.

Pogrzeb Helga Ólafsson odbędzie się 17 września o godzinie 13.00 w Keflavíkurkirkja ( Kościół w Keflaviku).

Helgi var alla tíð ötull baráttumáður fyrir réttinda- og fræðslumálum innflytjenda og beitti sér ötullega fyrir málefnum þeirra á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar. Fyrir stofnun Verk Vest var Helgi formaður Verkalýðsfélags Hólmavíkur sem undir forystu hans frá árinu 1982 tók virkan þátt í samningagerð Alþýðusambands Vestfjarða (ASV).  Í kjölfarið óx virkni félagsins á Hólamvík; haldið var upp á 1. maí ár hvert, félagið stóð fyrir námskeiðum af ýmsu tagi og þjónusta við félagsmenn jókst. Undir forystu Helga stóðu félagsmenn á Hólmavík ásamt fjórum öðrum félögum innan ASV að sjö vikna verkfalli landverkafólks vorið 1997. Verkalýðsfélag Hólmavíkur var eitt af stofnfélögum Verkalýðsfélags Vestfirðinga árið 2000 og var Helgi varaformaður til ársins 2007 ásamt því að sinna fjöldanum öllum af trúnaðarstörfum fyrir félagið. Helgi starfaði hjá Verk Vest allt til ársins 2017 en þá lét hann af störfum sökum aldurs.

Stjórn og starfsfólk Verk Vest senda fjölskyldu Helga og öðrum aðstandendum innilegustu samúðarkveðjur.


mánudagurinn 31. ágúst 2020

Vinnustaðaeftirlit verkalýðsfélaganna

ASÍ og SA hafa um árabil staðið fyrir verkefninu EINN RÉTTUR – EKKERT SVINDL! Verkefni þetta er gert út frá stéttarfélögum innan ASÍ um allt land og tilgangur með verkefninu er að tryggja jafna stöðu launafólks og atvinnurekenda um allt land. Atvinnurekendur vilja að allir rekstraraðilar sitji við sama borð til að tryggja eðlilegan samkeppnisgrundvöll, og stéttarfélögin vilja tryggja að félagsmenn fái greitt samkvæmt kjarasamningum.

Nú er fjórða sumarið að verða liðið hjá okkur í Verkalýðsfélagi Vestfirðinga í virku eftirliti og er mikið gleðiefni að við merkjum að atvinnurekendur standi betur að málum eftir því sem við heimsækjum þá oftar. Þrátt fyrir það leynast mörg verkefni fyrir okkar fulltrúa í þessum heimsóknum, og það sem hefur vakið sérstaka athygli okkar er að stöku atvinnurekendur telja persónuverndarlög leysi þá undan þeirri lagaskyldu að framvísa launagögnum starfsfólks sem eftirlitsfulltrúar óska eftir. Þetta er alger misskilningur, enda hefur forstjóri Persónuverndar tekið af því allan vafa eins og sjá má hér.

Eftirlitsfulltrúar Verk Vest þakka atvinnurekendum og því fjölmarga starfsfólki sem rætt var við góðar móttökur á líðandi sumri.


Átakið tók gildi 15.mars og verður nú framlengt frá 31. ágúst til 31. desember 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma.

Nánari útfærsla á átaksverkefninu: Gerðir voru samningar við fræðsluaðila sem bjóða upp á vefnám/fjarnám þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er boðin þátttaka í námi/námskeiðum þeim að kostnaðarlausu. Þessir samningar gilda einnig tímabundið og gagnvart því námi/námskeiðum sem fræðsluaðilar bjóða upp á innan þessa tímaramma það er núna frá 15. mars til og með 31.desember 2020. Einstaklingar og fyrirtæki geta skráð sig hjá viðkomandi fræðsluaðilum sem sjóðurinn er með samninga við án þess að greiða (gildir gagnvart námi/námskeiði sem kostar að hámarki 30.000,-). Fræðsluaðilarnir senda reikninga beint á sjóðina.

Breytingar á úthlutunarreglum voru eftirfarandi:
• Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, voru hækkaðar úr allt að 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. desember 2020.
• Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu var hins vegar breytt og er 90% í stað 75% af kostnaði við námið. Gildistími frá 15. mars til og með 31. desember 2020.
• Tómstundstyrkir sem voru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári eru í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. desember 2020.

Nánari upplýsingar veita Kristín Njálsdóttir, kristin@landsmennt.is og Hulda Björg Jóhannesdóttir, hulda@landsmennt.is í síma 599-1450 eða á tölvupósti.


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.