fimmtudagurinn 21. september 2017

Formleg opnun Blábankans á Þingeyri

1 af 2

Blábankinn nýsköpunar- og þjónustumiðstöð opnaði formlega á Þingeyri 20. september. Verkalýðsfélag Vestfirðinga verður samstarfsaðili Blábankans, en félagið á eingarhlut í húsnæðinu á móti Landsbankanum. Samfélagsverkefnið Blábankinn stendur og fellur með íbúunum á þingeyri og virkni þeirra í þátttöku með verkefnum Blábankans. Til stendur að vera með fasta opnunartíma frá mánudögum til fimmtudags frá kl.12 - 16 en á fimmtudögum er ráðgert að vera með lengda opnun. Eitt af fjölmörgum verkefnum sem Blábankinn mun taka að sér er að veita þjónustu fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir á svæðinu og mun Verk Vest gera samstarfssamning við Blábankann sem felur í sér þjónustu við félagsmenn Verk Vest á Þingeyri. það er von okkar hjá Verk Vest að samstarfið muni auka enn á góð samskipti við félagsmenn okkar á Þingeyri. 


Sveitarfélögin á Vestfjörðum, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur, Vesturbyggð, Reykhólahreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð og Árneshreppur, boða ásamt Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Verkalýðsfélagi Vestfirðinga til borgarafundar í íþróttahúsinu á Ísafirði nk. sunnudag 24. september kl. 14. Á fundinum verða rædd ein mikilvægustu hagsmunamál fjórðungsins um þessar mundir sem snúast öll um mikilvæga innviðauppbyggingu á Vestfjörðum. Meðal annars verður gerð grein fyrir meginniðurstöðum nýrrar skýrslu KPMG fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða um hagsræn og samfélagsleg áhrif sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi.

Starfandi ráðherrar málaflokkanna hafa staðfest komu sína til fundarins; ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. Ráðherra umhverfis- og auðlindamála hafði ekki tök á að þekkjast boðið. Auk þess hefur formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands verið boðið til fundarins. Að loknum framsögum taka fulltrúar sveitarfélaganna, ráðherrar, fulltrúi KPMG og formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands sæti í pallborði til að svara spurningum úr sal. Fundarstjóri verður Heimir Már Pétursson fréttamaður.

Verkefnin sem rædd verða á borgarafundinum lúta að raforkumálum (Hvalárvirkjun), samgöngumálum (Gufudalssveit) og sjókvíaeldi (í Ísafjarðardjúpi). Öll verkefnin sæta ýmist harðri gagnrýni, þar sem þess er jafnvel krafist að þau verði slegin út af borðinu, eða eru sífellt tafin um framkvæmdaleyfi þrátt fyrir eðlilegt ferli innan stjórnsýslunnar og löngu tímabær framlög á vegaáætlun.

Raforkumál á Vestfjörðum hafa lengi verið bágborin af ýmsum ástæðum. Bæði er þar úr sér gengið flutningskerfi til Vestfjarða sem veldur rafmagnsleysi heimila og atvinnulífs með reglubundnum hætti og stundum fjárhagstjóni þegar verst lætur. Ekki hafa enn komið fram áform um að bæta flutningskerfið. Vaxandi atvinnuuppbygging á sunnanverðum Vestfjörðum ásamt áformum um sambærilega innviðauppbyggingu á norðanverðum fjörðunum kalla á aukna raforku í fjórðungnum og þar er Hvalárvirkjun hagkvæmasti kosturinn svo fremi sem ráðist verði í gerð nýs tengipunktar fyrir raforku inn á flutningskerfi Landsnets. Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki rammaáætlunar en þrátt fyrir það er barist hatrammlega gegn virkjunaráformunum af ýmsum hagsmunaaðilum. Ísafjarðardjúp er skilgreint fyrir sjókvíaeldi, eitt örfárra svæða á landinu enda fjarri öllum ábatasömum stangveiðiám sem hafa eðlilegt verndargildi. Engu að síður er barist ötullega gegn því eldi sem kynnt hefur verið.

Framkvæmdaaðilar um borgarafundinn 24. september á Ísafirði telja mikilvægt að gefa íbúum fjórðungsins kost á að stofna til málefnalegrar og gagnrýninnar umræðu með sveitarstjórnum og ráðherrum, þar sem sjónarmið íbúa fái að komast að í umræðunni um málefni fjórðungsins til jafns á við aðra. Því er mikilvægt að íbúar fái tækifæri til að spyrja út í þau brýnu verkefni sem verða til umræðu og fá svör við því hvers kunni að vera að vænta í þessum efnum á næstu mánuðum og að loknum kosningum.

Ísafirði 20. september 2017.

Fyrir hönd aðstandenda borgarafundarins veitir Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, frekari upplýsingar í síma 698 4842.


föstudagurinn 8. september 2017

Lokað á Patreksfirði 12 - 15. september

Vegna náms- og kynnisferðar starfsmanns okkar á Patreksfirði verður skrifstofa félagsins á Patreksfirði lokuð dagana 12. -15. september að báðum dögunum meðtöldum. Skrifstofan á Ísafirði mun að sjálfsögðu reyna leysa eins vel úr málum og hægt er meðan á lokun stendur.

Starfsfólk Verkalýðsfélags Vestfirðinga


þriðjudagurinn 5. september 2017

Ályktun um atvinnu- og byggðamál

LJósmynd: Gústi
LJósmynd: Gústi

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga, krefst þess að stjórnvöld gefi íbúum Vestfjarða skýr svör og höggvi nú þegar á þá hnúta sem standa atvinnuuppbyggingu í fjórðungnum fyrir þrifum. Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga gagnrýnir harðlega hugmyndir um að laxeldi við Ísafjarðardjúp verði slegið á frest eða laxeldi settir þvílíkir afarkostir að ekki verður unt að hefja raunhæfa uppbyggingu laxeldis við Djúp.

Lífsnauðsynlegt er að skjóta öruggari stoðum undir byggð á Vestfjörðum og tryggja atvinnuöryggi þannig að hægt sé að styrkja grunnþætti atvinnulífs í fjórðungnum.  Megin áhersla atvinnuppbyggingar snúi að sjávartengdri atvinnustarfsemi auk nýtingu allra þeirra auðlinda sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða. Stjórn félagsins bendir á þann mikla viðsnúning í atvinnulífi og uppbyggingu sem orðið hefur á sunnanverðum Vestfjörðum með tilkomu nýrra atvinnutækifæra.

Í dag er óhóflegur flutningskostnaður rafmagns ásamt erfiðum rekstrarskilyrðum vegna ótryggrar raforku og skorts á boðlegum heilsárssamgöngum innan Vestfjarða mikil ógn við atvinnuöryggi í fjórðungnum. Alþingi á að boða lagasetningu á Teigsskógshnútinn sem framhald við Dýrafjarðargöng og endurbætur Dynjandisheiðar. Nauðsynlegt er að stórbæta afhendingaröryggi raforku í fjórðungnum með því að ráðast strax í byggingu Hvalárvirkjunar. Slíkt verði í sátt við náttúru og samfélag þó þannig að íbúar svæðisins fái að njóta vafans.

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga minnir á að landsbyggðin ráðstafar um 30-80% af sínum tekjum á höfuðborgarsvæðinu en höfuðborgarsvæðið eingöngu 10-20% af sínum tekjum í hendur lögaðila á landsbyggðinni. Því eru það sjálfsögð mannréttindi að búsetuskilyrði á Vestfjörðum komist inn í tuttugustu og fyrstu öldina. Við viljum að fólkið okkar sé sett í forgang og hér verði sköpuð skilyrði til atvinnuppbyggingar í sátt íbúa og náttúru.

Vestfirðingar eru ekki að biðja um neitt meira en fá að bjarga sér.

Ísafirði 4. september 2017 

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga


föstudagurinn 25. ágúst 2017

Lokað á Patró

Í dag, föstudag 25. ágúst, verður lokað á skrifstofunni á Patró. Opið er á Ísafirði eins og venjulega, sími: 4565190


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.