miðvikudagurinn 25. apríl 2018

1. maí dagskrá stéttarfélaganna

Tökum öll þátt í kröfugöngu stéttarfélaganna.

Union members! Show solidarity and take part in the parade.

Wszyscy bierzemy udzial w pochodzie zwiazków zawodowych.

Lagt verður af stað frá Alþýðuhúsinu kl. 14.00. Gengið verður að Pollgötu og þaðan niður að Edinborgarhúsi með Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar í fararbroddi.

Dagskráin í Edinborgarhúsinu:

Kynnir verður Kolbrún Sverrisdóttir.

Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar:

Stjórnandi: Madis Maekalle

Ræðumaður dagsins:

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Söngatriði:

Hjördís Þráinsdóttir syngur við undirleik Stefáns Jónssonar

Pistill dagsins:

Agnieszka Tyka skrifstofukona flytur pistil á Pólsku.

Krotkie przemowienie dla Naszych rodakow po polsku.

Dansatriði:

Nemendur Henna Nurmi við Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar munu sýna dans.

Kaffiveitingar:

Slysavarnardeildin Iðunn hefur umsjón með kaffiveitingum í Guðmundarbúð, Sindragötu 6, að hátíðarhöldum loknum.

Kvikmyndasýningar fyrir börn:

Börnum á öllum aldri er boðið í Ísafjarðarbíó kl. 14.00 og 16.00

Hátíðarhöld á Suðureyri

Kröfuganga frá Brekkukoti kl. 14.00.

Boðsund barna í Sundlaug Suðureyrar.

Kaffiveitingar verða í Félagsheimili Suðureyrar.

Ræða dagsins: Lilja Rafney Magnúsdóttir.


miðvikudagurinn 25. apríl 2018

Laun hækka þann 1. maí

Þann 1. maí næst­kom­andi hækka laun al­mennt um 3% sam­kvæmt kjara­samn­ing­um Verk Vest á aðild að.  Lág­marks­tekjutrygging fyrir dagvinnulaun hækkar meira eða sem nem­ur 7% og verður lág­marks­tekju­trygg­ing fyr­ir 100% starf 300 þúsund krón­ur á mánuði.

Félagsmenn Verk Vest eru hvattir til að fylgjast sérstaklega með hvort laun fyrir dagvinnu, bónusar og álagsgreiðslur  þar með taldar, lendi undir 300 þúsund. Atvinnurekanda ber að bæt starfsfólki í fullu starfi sem EKKI nær 300 þúsund fyrir dagvinnu það sem upp á vantar.

Rétt er að minna á að 1. júlí næst­kom­andi hækkar mót­fram­lag at­vinnu­rek­enda í líf­eyr­is­sjóði á samn­ings­sviði SA og aðild­ar­fé­laga ASÍ úr 10,0% í 11,5%.

Nýjar kaupgjaldsskrár hafa verið uppfærðar á og eru aðgengi­legar á vef Verk Vest. 


„Það er dýrt að hækka laun á Íslandi“. Þannig hefst pistill Ástu S. Fjeldsted framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands og má jafnvel skilja inngangin sem svo að íslenskt atvinnulíf sé komið á heljarþröm.  Megin þungi pistilsins er á launatengd gjöld og að fríðindi starfsmanna valdi því hversu erfitt og dýrt það sé að hækka laun. Þannig heldur Ásta áfram og segir of háan launakostnað bitna á samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Með því sé verið að berja niður nýsköpun og fæla erlend og innlend fyrirtæki frá því að byggja upp atvinnustarfsemi hér á landi. Starfsfólk íslensku fyrirtækjanna hafi svo mikil fríðindi og auk fríðindann fái þeir líka orlofsrétt að ótöldum dýrum lífeyrisréttindum.

Ásta bítur eiginlega höfuðið af skömminni með því að ýja að í raun fái starfsfólkið einungis tæplega 2/3 af launum í eigin vasa og því þurfi eiginlega ekki að hækka laun. Gleymum heldur ekki blessuðum stöðuleikanum sem starfsfólkið á alltaf að bera. Hvers konar málflutningur er þetta? hvaða tilgangi á hann að þjóna? Jú, svarið er einfalt. Málflutningurinn er til þess fallinn að slá ryki í augu þeirra sem lesa pistilinn og telja atvinnurekendum og starfsfólki trú um að laun á Íslandi séu of há og að hækkun launa skili sér í raun ekki til starfsfólks, nema að litlu leiti.

Í komandi sveitastjórnarkosningum er frambjóðendum tíðrætt um að útrýma hinu og þessu. Útrýma á svifryki, húsnæðisskorti og skorti á leikskólaplássum. Eitt stingur þó í augum, enginn frambjóðandanna sem stigið hafa á stokk segjast ætla útrýma fátækt. Ætli það sé meðvituð ákvörðun frambjóðanda að ætla ekki að útrýma fátækt. Er það kanski vegna „hversu dýrt er að hækka laun á Íslandi“ og til að ógna ekki stöðugleikanum?

Það er ljóst að öllu ráðum skal beita til að verja stöðugleika fjármagnseigenda, þá má grípa til gamalkunnra blekkinga og smjörklípan í pistli Ástu er að svigrúm til launahækkana sé lítið og launahækkanir skili sér að takmörkuðu leiti til starfsfólks.  

Atvinnulíf á Íslandi er um þessar mundir á toppi gríðarlegarar hagsveiflu, það staðfesta fréttir af ofurbónusum forstjóra. En afkomubónusar stjórnenda og arðgreiðslur til hluthafa hljóta að segja okkur hinum hversu vel gengur í íslensku atvinnulífi. Hækkun launa æðstu stjórnenda fjömargra fyrirtækja virðist að minnsta kosti ekki vera eins dýr og þegar kemur að hækkun launa til starfsfólksins. Varla þarf að minna á ofurbónusa sem forstjórar nokkra stórfyrtækja fengu og numu tugum milljóna fyrir árið 2017. Þar fara launahækkanir sem byggja einna helst á árangurstengdum bónusum sem segir okkur að afkoma fyrirtækjanna hafi í raun verið mjög góð, og líka að í raun sé nægt svigrúm til launahækkana á Íslandi.

Fyrir mér er það ekki trúverðugur málflutningur að þeir sem eru í forsvari fyrir atvinnulíf, sem borgar forstjórum og æðstu stjórnendum tug milljóna launahækkanir í skjóli góðrar afkomu, ætli okkur hinum að standa undir stöðuleikanum með litlum launahækkunum.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga


þriðjudagurinn 17. apríl 2018

Lokað vegna námskeiðs

Allar skrifstofur Verk Vest verða lokaðar miðvikudaginn 18. apríl frá kl.8.00 - 10.00 vegna námskeiðs hjá starfsfólki.  


þriðjudagurinn 10. apríl 2018

Fyrstu úthlutun orlofshúsa lokið

Flókalundur
Flókalundur

Nú er lokið fyrstu úthlutun orlofshúsa og ættu nú allir umsækendur að hafa fengið tölvupóst um hvort þeir fengu úthlutað húsi eða ekki. Þeir félagsmenn sem fengu úthlutað hafa til 17. apríl til þess að ganga frá greiðslu. Þeir sem ætla ekki að nýta sér vikuna sem þeir fengu úthlutað eru hvattir til þess að láta vita sem fyrst á skrifstofu í síma 4565190 eða með því að senda tölvupóst á netfangið: postur@verkvest.is.

Þeir sem ekki fengu úthlutað hafa til 22. apríl til þess að tryggja sér lausar vikur.

Þann 23. apríl opnast svo fyrir bókun fyrir alla félagsmenn og gildir þá reglan fyrstur kemur fyrstur fær óháð punktastöðu.


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.