mánudagurinn 20. janúar 2020

Breyttur opnunartími skrifstofu Verk Vest


Kjarasamningur undirritaður hjá Ríkissáttasemjara
Kjarasamningur undirritaður hjá Ríkissáttasemjara

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands, fyrir hönd 17 aðildarfélaga sinna, skrifaði í dag undir nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2020 til 30. september 2023.

Helstu atriði samningsins eru sem hér segir:

  • Laun hækka um 90.000 kr. á tímabilinu 1. janúar 2020 til 1. janúar 2022. Þann 1. janúar 2023 hækka laun í samræmi við hækkanir á almennum vinnumarkaði.
  • Lágmarksorlof hjá öllum starfsmönnum verður 30 dagar.
  • Markviss skref til styttingar vinnuvikunnar. Frá 1. janúar 2021 styttist vinnuvikan um samtals 65 mínútur fyrir fólk í fullu starfi.
  • Vegna þess hversu lengi það hefur dregist að gera kjarasaming fá félagsmenn greidda eingreiðslu, upp á samtals 195.000 kr., miðað við fullt starf tímabilið 1. apríl til 31. desember 2019. Til frádráttar kemur 125.000 kr. innágreiðsla frá því í október 2019.
  • Persónuuppbót sem greiðist 1. maí ár hvert og nemur 50.450 kr. fyrir fullt starf árið 2020. Desemberuppbót hækkar úr 115.850 kr. árið 2019 í 124.750 kr. árið 2022.

Á næstu mánuðum verður lögð vinna í að leiðrétta og endurskoða fyrirkomulag ráðninga tímavinnufólks. Þá verður stofnaður sérstakur Félagsmannasjóður með það markmið að stíga skref til jöfnunar lífeyrisréttinda milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og opinberra starfsmanna. Atvinnurekandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna og er úthlutað úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum verður nú í ár og fá allir félagsmenn í fullu starfi greiddar 61.000 kr. Starfsmenn sem eru ekki í fullu starfi fá greiðslu miðað við starfstíma og starfshlutfall.

SGS mun áfram taka fullan þátt í starfshópi aðila opinbera vinnumarkaðarins sem fjallar um fyrirkomulag vaktavinnu og starfskjör vaktavinnufólks. Nái starfshópurinn niðurstöðu um frekari breytingar munu samningsaðilar taka upp viðræður um með hvaða hætti þær verða innleiddar.  Hægagangurinn sem hefur verið í þeirri vinnu er alfarið á ábyrgð samningarnefndar ríkisins og ekki hægt bíða þeirrar niðurstöðu til að okkar fólk fái löngu tímabærar launahækkanir.

Tekið er upp nýtt ákvæði að félagsmenn sem starfað hafa samfellt í 3 ár geta fengið launað leyfi í samtlas í þrjá mánuði til að stunda viðurkennt starfsnám.

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum og vikum en gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslu um hann ljúki 10. febrúar.


fimmtudagurinn 16. janúar 2020

Orlofshús Verk Vest á Spáni - sumarbókanir


 

 

Sumarhús Verk Vest á Spáni er laust til bókana fyrir sumartímabil 2020. Leigutímabil að sumri eru tvær vikur og vilji fólk vera lengur er mögulegt að leigja tvö tímabil. Skiptidagar sumar 2020 eru þriðjudagar og hefst leigutímabilið þriðjudaginn 26. maí. Verð fyrir tvær vikur er 103.000 kr. en 193.000.kr. fyrir fjórar vikur. Hús félagsins er í raðhúsahverfinu Altomar III í Los Arenales sem er úthverfi Alicanteborgar. Mjög gott útsýni er til Alicante frá ströndinni í Arenales sem er samfelld alveg til Alicante. Húsið okkar heitir Vinaminni er nr. 13 á jarðhæð í raðhúsahverfinu Altomar III í Arenelas. Best er að notast við hlið nr.123, þaðan eru örfá skref að íbúðinni. Húsið stendur um 500 metra frá strönd en strætó stoppar við raðhúshverfið, einnig stoppar strætó sem fer út á flugvöll á sama stað. Við strandgötuna er fjöldi veitingastaða og verslana þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Á ströndinni eru einnig nokkrir strandbarir fyrir sólarþyrsta ferðamenn. 


Hér má svo finna frekari upplýsingar um húsið.


miðvikudagurinn 15. janúar 2020

Hugur okkar hjá Flateyringum og Súgfirðingum

Magnús Einar Magnússon, formaður björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri
Magnús Einar Magnússon, formaður björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri

Á stundum sem þessum verður okkur ljóst að við stjórnum ekki náttúrunni, og í litlu samfélagi sem Vestfirðir eru verðum við að þjappa okkur saman þegar hamfarir dynja á okkur. Samtakamátturinn er mikill og þegar á bjátar kemur það best í ljós. Hugur okkar er hjá Flateyringum og Súgfirðingum og þeim sem sinna hjálparstarfi í kjölfar hamfaranna.

https://www.ruv.is/frett/aldrei-verid-jafn-anaegdir-ad-heyra-grat


 

Fræðslusjóðirnir Landsmennt, Sjómennt, Ríkismennt og Sveitamennt, hafa ákveðið að hækka hámark einstaklingsstyrkja frá og með 1. janúar 2020.  

Hámarksgreiðsla á ári fer úr kr. 100.000,- fyrir almennt nám í kr. 130.000,-

Þriggja ára uppsafnaður styrkur hækkar úr kr. 300.000,- í kr. 390.000,- fyrir eitt samfellt nám

Athygli er vakin á að umræddar breytingar sem taka gildi 1. janúar 2020 eiga við um nám sem hefst frá og með þeim tíma.

 


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.