mánudagurinn 19. febrúar 2018

Kjaramálafundir Verk Vest 20 - 22.feb

Verkalýðsfélag Vestfirðinga verður með kjaramálafundi á eftirtöldum stöðum dagana 20. - 22. febrúar:

Þriðjudaginn 20. febrúar kl.18:00 í Blábankanum á Þingeyri

Miðvikudaginn 21. febrúar kl.18:00 í Félagsheimilinu á Patreksfirði

Fimmtudaginn 22. febrúar kl.13:00 í Þörungaverksmiðjunni Reykhólum og kl.15.30 í Hólmadrangi á Hólmavík

Formaður og varaformaður Verk Vest munu fara yfir stöðuna í kjaramálum í aðdraganda endurskoðunar kjarasamninga innan aðildarfélaga ASÍ. 


Ríkisstarfsmenn sem eru í aðildarfélögum ASÍ, þ.e. félagsmenn RSÍ, Samiðnar, VM, SGS og félaganna í Flóabandalaginu fá nú í fyrsta sinn svokallaða launaskriðstryggingu sem gefur að meðaltali 1,8% hækkun á laun afturvirkt frá 1. janúar 2017. Þetta er gert á grundvelli samnings sem ASÍ gerði við ríkið 21. desember 2017 og byggir á rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá október 2015.

Leiðréttingin kemur til útborgunar á flestum stöðum þann 1. mars. Þetta er gert til að tryggja að launaskrið á almenna vinnumarkaðnum nýtist líka starfsfólki hjá hinu opinbera. Allir félagsmenn Verk Vest sem starfa hjá ríkisstofnunum eiga rétt á leiðréttingunni.

Tryggingin er mæld út frá launaskriði árin 2013 til 2016 en annað uppgjör verður svo gert fyrir árin 2017 og 2018 og leiðrétt ef tilefni er til. Útfærsla tryggingarinnar er misjöfn eftir landssamböndum.


Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) telur að 35% kvenna yfir 15 ára aldri, alls 818 milljónir kvenna í heiminum öllum, hafi upplifað kynferðislegt ofbeldi, heimilisofbeldi eða ofbeldi á vinnustað. Við slíkt verður ekki unað og því hefur Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) blásið til 23 daga átaks til að vekja athygli á málinu. 

Kynbundið ofbeldi er enn í dag eitt algengasta form mannréttindabrota sem látið er viðgangast. Það þarf að breytast og vitundarvakning um stöðu mála er fyrsta skrefið. Í júní næst komandi verður haldið þing Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO) þar sem baráttan gegn kynbundnu ofbeldi verður sett á oddinn. 

Það verða engin sómasamleg störf til þar sem ofbeldi þrífst á vinnustað. Þrátt fyrir það eru ekki til lög á alþjóðlegum grunni sem uppræta ofbeldi og áreitni að neinu marki.

Markmiðið með herferð ITUC er að:

  • Byggja upp móralskan stuðning fyrir þing Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO) þar sem ofbeldi á vinnustað verður til umfjöllunar með áherslu á kynbundið ofbeldi.
  • Styðja stéttarfélög í því að útrýma kynbundnu ofbeldi af vinnustöðum í þeirra nærumhverfi. 

Herferðin hefst í dag, 14. febrúar með svokölluðum V-degi sem snýst um baráttuna gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum, og því líkur þann 8. mars á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Nánar hér.


Verk Vest auglýsir opinn félagsfund trúnaðarráðs Verk Vest fimmtudaginn 15. febrúar kl.18.00 á 4 hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Endurskoðun kjarasamninga er eitt heitasta umræðuefnið innan veraklýðshreifingarinnar og framundan ákvörðun um hvort segja skuli upp kjarasamningum.

Gestir fundarins vera þau Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands og Drífa Snædal, framkvæmdastýra Starfsgreinasambands Íslands. En þau ætla fara yfir stöðuna í kjaramálum og það sem er framundan hjá Starfsgreinasambandinu.  

Á fundinum verður einnig kynning á verkefninu "Ungir leiðtogar" sem er námskeið fyrir ungt fólk í verkalýðshreyfingunni.

Félagið gerir ráð fyrir að halda félagsfundi á Hólmavík, Patreksfirði og Reykhólum dagana 21 - 22. febrúar. Nánari tíma- og staðsetningar verða auglýstar síðar. 


fimmtudagurinn 1. febrúar 2018

Skipulags- og starfsmannabreytingar hjá Verk Vest

Félagsmenn okkar og aðrir viðskiptavinir verða varir við ýmsar breytingar hjá Verk Vest nú um mánaðarmót. Fyrst er að nefna að ráðinn hefur verið til Verk Vest varaformaður félagsins, Bergvin Eyþórsson, og mun hann gegna starfi skrifstofustjóra ásamt því að sinna vinnustaðaeftirliti og vinnu við kjara- og réttindamál. Bergvin er fjölskyldumaður búsettur í Hnífsdal, og hefur frá árinu 2008 jafnfætis stundað sjómennsku og nám við Háskólann á Akureyri, en þar lagði hann fyrst stund á kennarafræði og síðar viðskiptafræði. Síðari ár gengdi hann þar að auki hlutverki trúnaðarmanns skipverja á skuttogaranum Stefni ÍS-28 ásamt því að vera í samninganefnd félagsins vegna kjarasamninga sjómanna. Fyrir tíma náms og sjómennsku var Bergvin verslunar- og rekstrarstjóri Hyrnunnar í Borgarnesi, og þar á undan var hann verslunarstjóri í verslun Bónuss á Ísafirði til sex ára. Verk Vest býður Bergvin velkominn til starfa fyrir félagið.

Þá hefur verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits, María Lóa Friðjónsdóttir, látið af störfum en María mun hefja störf hjá ASÍ þann 1. febrúar. Verkefnastjórn vinnustaðaeftirlits færist í framhaldinu til skrifstofu félagsins á Hólmavík og verður í umsjón Ingibjargar Benediktsdóttur starfsmanns félagsins á Hólmavík. Starfsmaður félagsins til næstum 12 ára og fyrrverandi gjaldkeri Eygló Jónsdóttir lét einnig af störfum nú um mánaðarmót. Stjórn og starfsfólk Verk Vest færir þeim Eygló og Maríu Lóu þakkir fyrir samstarfið og óskar þeim góðs gengis í framtíðinni.


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.