miðvikudagurinn 29. apríl 2020

Sumarbústaðir, útilegukort og gistimiðar

Orlofsbyggin Flókalundi
Orlofsbyggin Flókalundi

Nú er sumarúthlutun lokið og hefur verið opnað fyrir bústaði á orlofsvef félagsins. Geta félagsmenn því bókað í laus tímabil beint á orlofsvef félagsins óháð punktastöðu.  

Stjórn Orlofssjóðs Verk Vest hefur ákveðið að leggja átakinu ferðumst innanlands lið með ennfrekari niðurgreiðslu gistimiða og Útilegukortsins. Eru félagsmenn hvattir til að kynna sér þessi frábæru tilboð sem gilda í sumar.

Einnig er rétt að ítreka að félagsskírteinið gildir sem afsláttarkort við kaup á vöru og þjónustu. Hér má skoða afsláttarkjör sem félagsmönnum bjóðast gegn framvísun félagsskírteinis Verk Vest.

Vegna víðtæks samkomubanns vegna Covid-19 hefur þurft að takmarka aðgengi að orlofsbyggðum og þær verið lokaðar í apríl.  Í maí verður takmörkunum létt að hluta í flestum orlofsbyggðum þannig að hægt verður að leigja bústaði háð þeim takmörkunum sem eru í gildi á hverjum stað. Orlofsbyggðin í Flókalundi verður hinsvegar lokuð þangað til frekari ákvörun um afléttingu samkomubanns á Vestfjörðum tekur gildi. Verður opnun í Flókalundi tilkynnt um leið og línur um afléttingu samkomubanns skýrast betur.


Fræðslusjóðir sem félagsmenn í Verk Vest eiga aðild að hafa nú tækifæri til að sækja nám hjá í áskrift hjá Tækninám ehf. þeim að kostnaðarlausu. Gerðir hafa verið samningar við fjölmarga fræðsluaðila um að veita félagsmönnum aðgang að rafrænum námskeiðum. Nú hafa sjóðirnir einnig gert samning við Tæknimennt ehf. um áskrift á rafrænum námskeiðum. Einstaklingar og fyrirtæki sem skrá sig á námskeið á vegum Tækninám.is fá beint aðgengi að leiðbeinendum námskeiða og geta átt samtöl og sent fyrirspurnir í gegnum fræðslugátt Tækninám.is.

Innifalið í áskrift að Tækninám er eftirfarandi:

  • Aðgangur að öllum okkar námskeiðum, sem telja nú um 27 
  • Öll ný námskeið, nýjungar og viðbætur á núverandi námskeiðum, við setjum inn ný námskeið á 4-8 vikna fresti að jafnaði Aðgengi að leiðbeinendum
  • Reglulegar vefstundir þar sem farið er yfir ýmis áhugaverð atriði og nýjungar
  • Aðgangur að sértækum námskeiðum með blönduðu kennslufyrirkomulagi, sjálfsnám, vefstund, æfingar
  • Tækifæri til að taka þátt í að móta áherslur og forgangsröðun í framleiðslu nýrra námskeiða

Félagsmenn í Verk Vest eru hvattir til að nýta sér þessa möguleika til að efla sig og eiga meiri möguleika t.d. þegar kemur að atvinnuleit.

 


þriðjudagurinn 28. apríl 2020

Skiptaverð hækkar þann 1. maí 2020

Meðalverð á skráðu gasolíuverði á Rotterdammarkaði hefur lækkað verulega að undanförnu vegna covid-19 faraldursins. Þetta olíuverð er notað sem viðmiðun í kjarasamningi sjómanna til að ákvarða skiptaverð til sjómanna.

Fyrir tímabilið frá og með 21. mars til og með 20. apríl síðastliðinn var meðalverð á olíunni sem notað er til viðmiðunar 262,20 $/tonn og hafði þá lækkað úr 379,96 $/tonn frá síðasta viðmiðunartímabili.

Þetta þýðir að skiptaverð, þegar ísaður afli er seldur skyldum aðila, hækkar úr 70,5% í 75,5% af aflaverðmæti skipsins. Þegar ísaður afli er seldur óskyldum aðila eða á fiskmarkaði hækkar skiptaverðið úr 70% í 75% af aflaverðmætinu (uppboðskostnaður á fiskmörkuðunum dreginn frá áður en skiptaverð er reiknað).

Á frystitogurunum sem selja með fob söluskilmálun hækkar skiptaverðið úr 72% í 74,5% af fob verðmætinu og ef aflinn er seldur með cif söluskilmálum hækkar skiptaverðið úr 66,5% í 69% af cif verðmætinu.

Á skipum sem frysta rækju um borð hækkar skiptaverðið úr 69% í 71,5% af fob verðmætinu  og úr 63,5% í 66% af cif verðmætinu.

Skiptaverð þegar siglt er með uppsjávarfisk á erlendan markað er óbreytt 70% af söluvirði aflans. Þegar siglt er með ferkan fisk á erlendan markað er skiptaverðið einnig óbreytt eða 66% af heildarsöluverðmæti aflans.

Framangreindar breytingar taka gildi frá og með 1. maí næstkomandi. Sjá nánar í töflu á heimasíðu SSÍ um skiptaverð í einstökum mánuðum.


Mynd: mbl.is
Mynd: mbl.is

Ný kaupgjaldskrá Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum 2020 komin á síðu Verk Vest og má nálgast hér.


Kosningu um kjarasamninginn lauk í gær, en samningurinn var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Kjörsókn var heldur dræm, en 17,4% þeirra sem samningurinn nær til greiddu atkvæði.

Gildistími samningsins er 01.01.2020 – 30.03.2023 og verður hann birtur innan skamms á vefsíðu félagsins.

Við óskum félagsmönnum okkar til hamingju með samninginn.


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.